Útskriftarhátíð klínískra lyfjafræðinga úr sérnámi í klínískri lyfjafræði á Íslandi var haldin í Hringsal á Landspítala hinn 4. nóvember 2022.
Alls eru átta lyfjafræðingar í sérnámi í klínískri lyfjafræði en að þessu sinni var útskrifuð Ingibjörg Sigurðardóttir. Hún hefur nú þegar ráðið sig til starfa á spítalanum og verður á bráðalyflækningadeild A2.
Við útskriftina fluttu stutt ávörp þau Freyja Jónsdóttir kennslustjóri, Tómas Þór Ágústsson framkvæmdastjóri lækninga, Arnþrúður Jónsdóttir deildarstjóri lyfjaþjónustu, Hildur Jónsdóttir, sérfræðingur í almennum lyflækningum, Eva María Pálsdóttir leiðbeinandi í sérnáminu og Elín Soffía Ólafsdóttir, deildarforseti lyfjafræðideildar Háskóla Íslands. Meðfylgjandi eru svipmyndir frá viðburðinum.
Markmið meistaranáms í klínískri lyfjafræði er að þjálfa og þróa hæfni nemenda í grundvallarþáttum klínískrar lyfjafræði. Náminu er ætlað að stuðla að þeirri hæfni sem þarf til að tryggja örugga, árangursríka og kostnaðarlega hagkvæma notkun lyfja í heilbrigðisþjónustu sem er lykilhlutverk klínískra lyfjafræðinga.
MS-nám í klínískri lyfjafræði er 90 eininga starfstengt nám á Landspítala. Kennt er í 50% hlutfalli í þrjú ár, 30 einingar á hverju námsári.