Á speglunardeild Landspítala hefur verið tekið í notkun nýtt tæki sem er mikilvæg viðbót við tækjakost deildarinnar.
Tækið er hannað til þess að gera speglunarlækni kleift að ná lengra niður mjógirnið en önnur tæki komast. Speglunartækið sjálft er aðeins 155 sentímetrar að lengd. Á enda þess er uppblásanlegur belgur og annar belgur er á yfirtúbu sem er sveigjanlegt rör utan á tækinu. Með því að færa rörið fram og aftur eftir speglunartækinu, með belgina ýmist uppblásna eða tæmda, er hægt að þræða smágirnið upp eftir tækinu og skapa stöðugleika til þess að færa það áfram eftir mjógirninu.
Tækið er mikilvæg viðbót við tækjaflota speglunardeildar í tvenns konar tilgangi:
1. Til að greina og meðhöndla sjúkdóma í mjógirni eins og blæðingar frá æðamissmíð.
2. Þegar skjólstæðingar eru með breyttan meltingarveg eftir skurðaðgerðir. Vandamál tengd gallvegum, brisgangi eða endurtengingum þessara ganga eftir skurðaðgerð getur verið erfitt eða ómögulegt að meðhöndla í speglun með venjulegum speglunartækjum. Nýja tækið getur gert speglunarlækni kleift að komast að til dæmis gallvegum þótt meltingarvegur sé breyttur eftir skurðaðgerð.
Stór kostur við tækið er að það er stutt og með breiðan vinnugang sem gerir speglunarlækni kleift að nota nánast alla hefðbundna leggi og verkfæri sem nauðsynleg eru, til dæmis við gallvegaspeglun.
Speglunartækið hefur verið notað með góðum árangri við gallsteinavandamáli hjá sjúklingi með endurtengingu gallvega við mjógirni.
Ljósmynd: Jón Örvar Kristinsson meltingarlæknir, Sigurður Einarsson meltingarlæknir, hjúkrunarfræðingarnir Elín Hilmarsdóttir aðstoðardeildarstjóri og Þórhildur Höskuldsdóttir deildarstjóri og Magnús Konráðsson, skurðlæknir og yfirlæknir speglunar.