Ágústa Hjördís Kristinsdóttir, sérfræðingur í bráðahjúkrun, hefur verið fengin til að gegna starfi deildarstjóra bráðamóttökunnar í Fossvogi í hálft ár frá 10. nóvember 2022 vegna fjarveru deildarstjórans þar. Aðstoðardeildarstjórar bráðamóttökunnar hafa að undanförnu gegnt starfi deildarstjóra.
Ágústa Hjördís er með framhaldsnám í bráða- og gjörgæsluhjúkrun frá Bandaríkjunum og hefur starfað lengstan hluta starfsferlis við bráðahjúkrun og við kennslu bráðahjúkrunar. Hún hefur haft umsjón með diplómanámi á meistarastigi í bráðahjúkrun auk þess að vinna ötullega að hæfniviðmiðum hjúkrunarfræðinga á bráðamóttökunni. Ágústa Hjördís er með diplóma í þróunarfræðum og hefur verið sendifulltrúi Rauða krossins í Bangladesh og Nepal.
Hún hefur víðtæka reynslu í verkefnavinnu og innleiðingu verkferla.