Iðjuþjálfar á Kleppi/Laugarási vöktu athygli á starfinu með veggspjöldum og póstum á samfélagsmiðlum á alþjóðadegi iðjuþjálfa 27. október 2022.
Í hádeginu þann dag buðu þeir einnig upp á súkkulaði með gagnlegum slagorðum um sérþekkingu iðjuþjálfa. Þangað kom fjöldi fólks og var ánægt með framtakið. Margir gestanna fóru af vettvangi með kynningarefni um iðjuþjálfun og matstæki iðjuþjálfa auk upplýsinga um námskeið sem iðjuþjálfar standa fyrir.
Iðjuþjálfar á Landspítala eru 31 á sex starfsstöðvum; í geðþjónustu Kleppi/Laugarási, barna- og unglingageðdeild BUGL, Grensási, Fossvogi, Hringbraut og Landakoti.
Iðjuþjálfahópurinn er fjölbreytilegur og sinnir fólki í bráða- og endurhæfingarþjónustu spítalans. Markmið iðjuþjálfunar er að efla og viðhalda líkamlegri, andlegri og félagslegri færni í daglegu lífi.