Nýlega voru kynntar fyrstu niðurstöður rannsóknar á fýsileika þess að nota Krabbameinsgáttina sem er rafræn samskiptagátt fyrir krabbameinssjúklinga.
Gáttin er ein af þeim nýjungum sem unnið er að til að auka rafrænnar heilbrigðisþjónustu. Hún samanstendur af Meðveru í Sögu og meðferðareiningu í Heilsuveru sjúklings. Krabbameinsgáttin er þróuð til að styðja betur við sjúklinga sem eru í meðferð við krabbameini.
Gáttin hefur þrenns konar virkni: Einkennamat, miðlun sjúklingafræðsluefnis og möguleiki á beinum samskiptum við heilbrigðisstarfsfólk.
Einkennamat er framkvæmt með tveimur þaulprófuðum spurningarlistum (DT-mat á vanlíðan og ESASr). Sjúklingar fá senda spurningarlista í heilsuveru sem þeir svara og birtast svörin hjá meðferðarteymi hans og í sjúkraskrá. Tengt spurningarlistunum er viðvörunarkerfi sem lætur heilbrigðisstarfsfólk vita ef sjúklingar skorar hátt á spurningarlistum og virkjar sjálfkrafa sendingu á fræðsluefni um þau vandamál og einkenni sem sjúklingar merkja við.
Til viðbótar við það fræðsluefni sem sent er sjálfkrafa getur heilbrigðisstarfsfólk sent fræðsluefni t.d. tengt nýrri meðferð. Hluti af verkefninu var að uppfæra og vinna nýtt gagnreynt fræðsluefni og er nú til banki með hátt í 200 fræðslubæklingum. Þriðji hluti gáttarinnar eru skilaboðavirkni þar sem sjúklingar geta sent inn fyrirspurnir og heilbrigðisstarfsfólk getur sent skilaboð eða svör til sjúklinga.
79 sjúklingar tóku þátt í rannsókninni og svöruðu þeir reglulega einkennamatslistunum á rannsóknartímabilinu auk þess sem þeir svöruðu spurningarlistum um hvernig þeim fannst samskiptagáttin virka. Viðhorf sjúklinga til gáttarinnar voru mjög jákvæð. Yfirgnæfandi meirihluta fannst hún auðveld í notkun og fræðsluefnið gagnlegt, skýrt og skiljanlegt. Flestum fannst einnig að einkennamatslistarnir auðvelduðu þeim að skilja betur líðan sína og þarfir. Meirihlutinn taldi gáttina veita öryggi og voru ánægðir með hana, myndu vilja nota hana áfram og mæla með henni við aðra.
Samanburður á fyrsta og síðasta ESAS einkennamatinu sýndi einnig að einkennabyrði, líkamleg og sálræn einkennabyrði minnkaði marktækt.
Niðurstöðurnar gefa til kynna á Krabbameinsgáttin sé fýsileg og megi þróa áfram.
Tengt efni: