Hulda Hjartardóttir hefur verið endurráðin í stöðu yfirlæknis fæðingarteymis í kvenna- og barnaþjónustu aðgerðasviðs Landspítala.
Hulda lauk námi frá læknadeild Háskóla Íslands árið 1988 og stundaði sérnám í kvensjúkdómum og fæðingarhjálp á kvennadeild Landspítala 1989-1991 og við sjúkrahús í Leeds og Bradford á árunum 1991-1998. Hún lauk MRCOG prófi árið 1994 og fékk sérfræðiréttindi á Íslandi 1997 og í Bretlandi 1998. Frá því ári hefur hún starfað sem sérfræðilæknir á kvennadeild Landspítala með aðaláherslu á fósturgreiningu og áhættumæðravernd auk fæðingarhjálpar. Hún var settur yfirlæknir á meðgöngu- og fæðingadeildum 2007-2009 og hefur verið yfirlæknir fæðingateymis frá því í maí 2017.
Hulda hefur sinnt kennslu og vísindastörfum samhliða starfi og lauk doktorsprófi frá Háskóla Íslands í maí 2021. Ritgerðin fjallaði um ómskoðanir í fæðingum. Gæðastörf deildarinnar eru ávallt í fyrirrúmi og hefur Hulda lagt áherslu á áframhaldandi þróun í þeim efnum. Að auki er sífellt reynt að auka samstarf við heilsugæslu, önnur sjúkrahús og stofnanir á Norðurlöndunum í því augnamiði að tryggja sem besta meðferð í meðgöngu og fæðingu.