Alþjóðaforseti Lions heimsótti barna- og unglingageðdeild Landspítala - BUGL 5. september 2022 ásamt félögum í Lionsklúbbnum Fjörgyn sem hefur lengi verið dyggur bakhjarl starfsemi deildarinnar.
Um árabil hefur Lionsklúbburinn Fjörgyn með dyggri aðstoð N1 og Sjóvá séð um rekstur tveggja bíla fyrir BUGL til að nota fyrir skjólstæðinga sína . Rekstur þessara bifreiðar er tryggður til september 2024. „Þakklæti starfsfólks og vissan um að bílarnir eru nær ómissandi í því góða starfi sem BUGL vinnur er okkur næg umbun og það er alltaf af mikilli gleði sem við leggjum okkur fram í stuðningi við þau,“ segja Lionsmennirnir í Fjörgyn.
Með félögum í Lionsklúbbnum Fjörgyn sem heimsóttu BUGL 5. september voru Brian Sheehan alþjóðaforseti Lions, Lori Sheehan eiginkona hans og Guðrún B. Yngvadóttir, fyrrverandi alþjóðaforseti Lions. Einnig Kristófer Tómasson fjölumdæmisstjóri og umdæmisstjórarnir Víðir Guðmundsson og Sigurður Steingrímsson
Starfsfólk BUGL með Björn Hjálmarsson yfirlækni, Sigurveigu Sigurjónsdóttur Mýrdal deildarstjóra og Þórunni Björgu Haraldsdóttur í fararbroddi kynntu Brian Sheehan starfsemi BUGL. Hann var mjög áhugsamur um starfsemina og sérstaklega göngudeildarþjónustu BUGL. Einnig hvernig þverfagleg nálgun starfsfólks BUGL á vandamál skjólstæðinga sinna gagnast þeim.
Fjörgynjarfélagar notuðu tækifærið og afhentu BUGL tvo nýja sófa frá GÁ húsgögnum í anddyri BUGL ásamt sófum sem höfðu verið lagfærðir (nýtt áklæði o.fl.) hjá Bólstrun H G.
Saga Fjörgynjar og Landspítala spannar nærri 30 ár. Fyrstu árin var það stuðningur við Barnaspítala Hringsins en frá aldamótum við BUGL. Þar sem rekstur tveggja bifreiða ber hæst.
Stuðningur Fjörgynjarmanna við BUGL birtist í mun fleiru en bílarekstrinum. Hér eru nokkur dæmi um það sem þeir hafa fært starfseminni við Dalbraut:
Tveir skjávarpar og sýningartjöld
Flatskjár og ferðatölvur
Stór og öflug kaffivél
Fullkomið mynd- og hljóðupptökutæki sem notað er í viðtölum til greiningar eftir á
Húsgögn í fjölskylduherbergi
Ipad spjaldtölvur
Húsgögn í útigarðinn
Sérsmíðað fundarborð á legudeild
Íslandskort
Sófar í anddyri og lagfæringar á eldri sófum.
Myndir:
- Tekið við gjafaskjali Lionsmanna - Brian Sheehan alþjóðaforseti Lions, Sigurveig Sigurjónsdóttir Mýrdal deildarstjóri og Björn Hjálmarsson yfirlæknir.
- Brian Sheehan og BUGL bíll sem Lionsklúbburinn Fjörgyn og stuðningsfyrirtækis hans reka fyrir starfsemi barna- og unglingageðdeildarinnar.
- Félagar í Lionsklúbbnum Fjörgyn með alþjóðaforseta sínum.
- Annar sófanna sem Fjörgyn gaf í anddyri BUGL.