Fjölskylda Gunnars Mýrdal Einarssonar hjartaskurðlæknis hefur til minningar um hann gefið málverk sem sett var upp í setustofunni á hjarta- og lungnaskurðdeild 12G við Hringbraut.
Gunnar Mýrdal var sérfræðingur í brjóstholsskurðlækningum og yfirlæknir hjarta- og lungnaskurðdeildar Landspítala. Hann lést 10. september árið 2020 eftir harðvítuga baráttu við krabbamein, aðeins 56 ára að aldri.
Gunnar nam sérgrein sína í Svíþjóð og starfaði þar fyrst við Cenrallasarettet Västerås og síðan við hjarta- og lungnaskurðdeild Uppsala háskólasjúkrahússins þar sem hann var yfirlæknir frá árinu 2006 til 2008. Hann fluttist þá heim og fór að starfa á brjóstsholsskurðlækningadeild Landspítala þar sem hann varð yfirlæknir árið 2016. Hann var einnig virkur í vísindastarfi og eftir hann liggja margar fræðigreinar og rannsóknarskýrslur.
Til minningar um Gunnar Mýrdal ákvað fjölskylda hans að gefa deildinni þar sem hann starfaði málverk eftir Tolla og var það afhent og því komið fyrir á vegg þann 14. september 2022.
Myndirnar:
Ásta Júlía Björnsdóttir, deildarstjóri 12G, Tómas Þór Kristjánsson, yfirlæknir hjarta- og lungnaskurðdeildar, Ingibjörg Kristjánsdóttir, eiginkona Gunnars heitins og tvær systur Gunnars, Rósa Mýrdal og Rikka Mýrdal.
Á málverkinu halda Tómas Þór Kristjánsson og Ingibjörg Kristjánsdóttir.