Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra undirritaði 23. ágúst 2022 samning Nýs Landspítala ohf. við Nordic Office of Architecture og EFLU verkfræðistofu vegna fullnaðarhönnunar á nýbyggingu við Grensásdeild Landspítala.
Um er að ræða viðbyggingu endurhæfingarhúsnæðis Grensásdeildar sem á að rísa vestanvert við aðalbygginguna. Samkeppni var um hönnun hússins árið 2022. Tillaga Arkþing-Nordic reyndist hlutskörpust að mati matsnefndar.
Hallgrímur Þór Sigurðsson undirritaði samninginn fyrir hönd Nordic Office of Architecture og Ólafur Ágúst Ingason fyrir hönd EFLU. Runólfur Pálsson forstjóri vottaði undirritunina fyrir hönd Landspítala og Guðrún Pétursdóttir fyrir hönd Hollvina Grensádeildar.
Mynd: Runólfur Pálsson Landspítala, Ólafur Ágúst Ingason EFLU, Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra, Hallgrímur Þór Sigurðsson Nordic Office of Architecture og Guðrún Pétursdóttir Hollvinum Grensásdeildar.
Um nýbygginguna
Nýja viðbyggingin verður 3.900 fermetrar að stærð. Aðstaða til sjúkraþjálfunar verður í fremstu röð með öllum þeim tækjum og búnaði sem þarf til að gera kleift að ná eins góðum árangri með skjólstæðinga og hægt er. Aðstæður iðjuþjálfunar verða líka stórbættar til að búa fólk undir nýtt líf og nýjar aðstæður eftir slys eða veikindi. Sett verður upp nútíma aðstaða fyrir þjálfun í öllum helstu daglegum athöfnum fólks svo sem þjálfunareldhús, baðrými, tölvukennsluaðstaða o.fl. Þar verði einnig fullbúin aðstaða (verkstæði) fyrir spelku- og hjálpartækjagerð.
Endurhæfingarstarfsemi með sjúkraþjálfun og iðjuþjálfun krefst töluverðs geymslurýmis sem séð verður fyrir með nýjum geymslum auk þess sem aðstaða fyrir starfsfólk og gesti batnar mikið.
Í húsinu verður legudeild fyrir 19 sjúklinga með útivistarsvæði og tómstundarými ásamt nýju eldhúsi og matstofu.
Nýtt viðbótarhúsnæði Grensásdeildar verður skipulagt með þarfir sjúklingsins í huga og möguleika hans til endurhæfingar og uppbyggingar til að geta snúið aftur út í samfélagið sem mest á eigin forsendum. Jafnframt er litið til þarfa starfsfólks fyrir gott vinnuumhverfi þar sem vinnuverndarsjónarmið eru í hávegum höfð. Bættur aðbúnaður aðstandenda er einnig ein af lykilforsendum í hönnun nýja hússins.
Hönnun lokið á 50 ára afmælinu
Endurhæfing Grensáss nýtur mikillar velvildar þjóðarinnar. Má í því sambandi nefna að árið 2009 var haldin landssöfnun fyrir uppbyggingu endurhæfingardeildar Landspítala á Grensási að frumkvæði Eddu Heiðrúnar Backman og er þetta verkefni hluti þeirrar vegferðar sem þá var hrundið af stað. Þarfagreining var síðan unnin árið 2016 af verkefnastofu Landspítala, Hollvinum Grensásdeildar og starfsfólki Grensáss.
Gert er ráð fyrir að hönnun verði lokið síðla árs 2023 en það ár mun Grensásdeild fagna 50 ára afmæli. Stefnt er að því að húsnæðið verði tekið í notkun árið 2026.
Umsagnir
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra: „Hér er enn einn ánægjulegur áfangi í uppbyggingu betra húsnæðis fyrir Landspítala, sjúklinga og starfsmenn, og eftir þessu skrefi hefur lengi verið beðið. Á þessum tímamótum er hægt að þakka mörgum en ég vil þó sérstaklega taka fram þátt Hollvina Grensásdeildar sem hafa ötullega stutt við bakið á uppbyggingunni hér á Grensásdeild, innan- og utanhúss. Grensásdeildin er sem endurhæfingarstaður gífurlega mikilægur þáttur í heilbrigðisstarfsemi þjóðarinnar, þess vegna er þetta skref okkur öllum mjög mikilvægt.“
Gunnar Svavarsson, framkvæmdastjóri Nýs Landspítala ohf.: „Nordic Office of Architecture og EFLA verkfræðistofa urðu hlutskörpust í útboði vegna fullnaðarhönnunar sem byggði á matslíkani og verði. Nú tekur við um 12 mánaða hönnunartími og eftir árið ættum við að sjá vinnuvélar mættar til að byrja á húsgrunni hússins, ef allar áætlanir ganga eftir. Fyrsta byggingarverkefni NLSH utan Hringbrautarsvæðisins þar sem allt er á fullri ferð.“
Runólfur Pálsson forstjóri Landspítala: Starfsemi Grensásdeildar er gríðarmikilvæg fyrir þjóðina og hún hefur alltaf notið mikils stuðnings fólks og velvilja. Þar hefur mörg lánast að fá nauðsynlega þjálfun og endurhæfingu til að takast á við lífið í breyttri mynd eftir alvarleg slys eða veikindi. Hins vegar hefur þessi starfsemi lengi búið við þröngan kost, húsnæðið verið alltof lítíð og á margan hátt óhentugt. Nú loks getum við horft fram á betri tíð hvað það varðar. Það er gleðiefni og ástæða til að þakka öllum sem haft lagt sitt af mörkum til að bæta húsnæði Grensásdeildar og aðstæður allar til starfseminnar þar.