Við stofnun meðferðargeðdeildar geðrofssjúkdóma 10. janúar 2022 var ákveðið að ráðast strax í miklar umbætur á húsnæði hennar. Þeim endurbótum lauk í júní.
Meðferðargeðdeild geðrofssjúkdóma 33A varð til með flutningi sérhæfðrar endurhæfingargeðdeildar frá Kleppi að Hringbraut. Þetta er lokuð legudeild sem sérhæfir sig í meðferð og endurhæfingu einstaklinga með geðrofssjúkdóma, í flestum tilfellum fólks sem er bæði með geðrofssjúkdóm og vímuefnavanda.
Á deildinni er lögð áhersla á hlýlegt, öruggt og rólegt umhverfi. Endurbætur á húsnæðinu sem ráðist var í endurspegla þá stefnu.
- Öllum sjúklingastofum breytt í einbýli. Herbergin gerð upp, máluð, sett örugg gluggatjöld og dempanleg lýsing. Þetta var hægt með því að breyta öllum viðtalsherbergjum í sjúklingastofur og hafa litla viðtalsaðstöðu í öllum sjúklingastofum í staðinn.
- Kaffistofa starfsfólks var færð í minna rými, nýjar innréttingar og allt málað.
- Virkniherbergi/listasmiðja fyrir sjúklinga fært í stærra og bjartara rými, allt málað, hljóðvist löguð, dempanleg ljós og nýjar innréttingar.
- Vaktin var öll tekin í gegn, máluð í hlýlegri lit, öll hljóðvist nú til fyrirmyndar og rýmið skipulagt sem opið vinnurými. Öll skrifborð stillanleg og skilrúm á milli borða til að draga úr hávaða og áreiti.
- Gamalt fundarherbergi var gert að auka setustofu fyrir sjúklinga þar sem núna er hægt að vera í „playstation“, horfa á bíómyndir eða spila. Það er mikilvægt fyrir sjúklinga sem óska þess að vera í meira næði að hafa aðgang að þessari stofu.
- Öll hljóðvist á deildinni var tekin í gegn og bætt úr henni með ýmsum hljóðvistarplötum sem sumar hverjar eru litríkar og skemmtilegt veggskraut á deildinni.
- Útbúið var vinnuherbergi á deildinni þar sem sálfræðingar og verkefnastjórar hafa aðsetur.
- Nuddstóll keyptur inn á deildina til að starfsfólk geti tekið sér smá hvíld til að hlað batteríin. Starfsfólk hefur látið í ljós ánægju sína með nuddstólinn og þá sérstaklega á næturvöktum.
- Húsgögn á allri deildinni hafa verið endurnýjuð.
- Milliveggir milli matsalsins og setustofunnar í almenna rýminu teknir niður sem hefur hleypt dagsbirtunni inn í rýmin.