Í krabbameinsþjónustu Landspítala hefur verið tekin í notkun ný rafræn samskiptagátt sem bætir þjónustu við sjúklinga umtalsvert.
Verkefnið er unnið í samstarfi við Embætti landlæknis og er styrkt af Krabbameinsfélagi Íslands og Krabbameinsfélagi höfuðborgarsvæðisins.
Tilgangur samskiptagáttarinnar er að bæta einstaklingum í heimahúsum aðgengi að upplýsingum og þjónustu og auðvelda heilbrigðisstarfsfólki að hafa yfirsýn yfir sjúklingahópinn, fylgja eftir breytingu á líðan og einkennum og geta á einfaldan hátt haft samskipti við sjúklinginn og sent fræðsluefni.
Hugmyndin að verkefninu er sprottin úr klínísku starfi á Landspítala. Langflestir einstaklingar með krabbamein dvelja meira heima hjá sér en á spítala og hafa því oft þörf fyrir stuðning og fræðslu til þess að takast á við einkenni og aukaverkanir meðferðar og sjúkdóms.
Erlendar rannsóknir sýna að sambærilegar veflausnir hafa meðal annars eflt sjálfsumönnun, bætt líðan og öryggi sjúklinga með krabbamein.