Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra átti fund með starfsfólki bráðamóttökunnar í Fossvogi 14. júní 2022 ásamt forstjóra Landspítala og fleiri stjórnendum spítalans. Tilgangur fundarins var fyrst og fremst að fara yfir þær aðgerðir sem unnið hefur verið að og framundan eru til að mæta alvarlegri stöðu á bráðamóttöku spítalans. Sömuleiðis gafst gott tækifæri til samtals og skoðanaskipta.
Segja má að aðgerðirnar snúi að aðflæði sjúklingina að spítalanum, flæði sjúklinga innan hans og loks viðbragða sem stofnanir utan spítalans koma að. Annars vegar hefur Landspítali unnið að fjölþættum aðgerðum og má þar helst nefna eftirfarandi:
1. Þegar hefur verið sett á fót fjarþjónusta bráðadagdeildar lyflækninga á Landspítala sem ætlað er að koma bráðveikum sjúklingum sem þarfnast þjónustu spítalans en þó mats eða meðferðar á bráðamóttöku í viðeigandi farveg hratt og vel. Þjónustan felst í fjarþjónustu við tilvísandi lækna á Læknavakt, heilsugæslustöðvum og öldrunarstofnunum og við sjúkraflutningamenn eftir atvikum.
2. Stækkun og bætt aðstaða bráðadagdeildar lyflækninga, sem áætlað er að opna 22. júní.
3. Endurskoðun meðferðarferla í endurhæfingarþjónustu á Landakoti ásamt aukinni þjónustu við þá sem bíða úrræða utan spítalans.
4. Aukin stoðþjónusta við starfsfólk bráðamóttökunnar og aðrar klínískar sþjónustueiningar.
5. Leiðir til að bæta aðbúnað og kjör starfsfólks.
Hins vegar hefur heilbrigðisráðuneytið skipað viðbragðssteymi um bráðaþjónustu í landinu og alvarlega stöðu innan hennar. Ráðherra hefur nú skipað Jón Magnús Kristjánsson, sérfræðing í bráðalækningum og fyrrverandi yfirlækni bráðamóttökunnar í Fossvogi, til að leiða teymið. Í tilkynningu ráðuneytisins um ráðningu Jóns Magnúsar er haft eftir honum að fyrstu áhersluatriði í vinnu teymisins verði eftirfarandi:
- Útfæra bráðaviðbrögð sem nýtast í sumar til þess að tryggja bráðaþjónustu Landspítala og öryggi sjúklinga sem þangað leita. Til þess þurfi að grípa til margvíslegra aðgerða sem tryggja að sem flestir fái þjónustu á réttum stað í kerfinu sem getur dregið úr álagi á Landspítalanum.
- Hlúa sérstaklega að mannauði þar sem mest álag er eins og á bráðamóttöku Landspítala.
- Leggja allt kapp á að opna a.m.k. 100 endurhæfingar- og/eða hjúkrunarrými fyrir lok árs til að efla úrræði utan Landspítala. Þegar hafa verið tekin mikilvæg skref sem snúa að samningagerð, fjármögnun og mönnun til að tryggja að þetta gangi eftir.
- Setja fram nokkuð ítarlega og tímasetta áætlun til næstu 3-5 ára um breytingar og umbætur í bráðaþjónustu til að bæta þjónustu, minnka sóun og auka árangur.