Kvenlækningadeild 21A uppfyllir kröfur gæðastaðals um byltuvarnir og var afhent viðurkenning þess efnis 15. júní 2022.
Undanfarin ár hafa 700 til 800 inniliggjandi sjúklingar á Landspítala hlotið byltu ár hvert samkvæmt atvikaskráningu. Byltur geta haft alvarlegar afleiðingar í för með sér og þeim fylgir mikill kostnaður. Aðgerðir í byltuvörnum á Landspítala eru byggðar á gagnreyndri þekkingu og vinnulag er skráð í gæðaskjöl í gæðahandbók spítalans.
Gæðastaðall byltuvarna á Landspítala er fjöldi byltna á 1000 legudaga. Byltur á 1000 legudaga voru 5,1 árið 2021 á Landspítala.
Markmið gæðastaðals byltuvarna:
A. Byltur verði < 4,0 á 1000 legudaga
B. Enginn sjúklingur hljóti alvarlegar afleiðingar af byltu
C. Enginn sjúklingur detti endurtekið í legu á sömu deild.
Innleiðing á verklagi byltuvarna á Landspítala stendur yfir. Kvenlækningadeild 21A er önnur deildin á spítalanum sem náð hefur þeim mikilvæga árangri að uppfylla kröfur gæðastaðals byltuvarna. Hin er öldrunarlækningadeild K2 á Landakoti.