Verkefninu „Strákar og hjúkrun – kynning fyrir stráka í 9. bekk grunnskóla“, sem staðið hefur yfir í eitt ár, lauk nú á vormisseri 2022 og þótti skila góðum árangri.
Jafnréttisnefnd Landspítala, í samstarfi við hjúkrunarfræðideildir HÍ og HA, hlaut veglegan styrk til verkefnisins frá Jafnréttissjóði Íslands árið 2020.
Verkefnið fólst í því að fara í grunnskóla bæði á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri og kynna fyrir strákum, á skemmtilegan hátt, störf hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða. Notaðar voru m.a. aðferðir hlutverkjaleikja þar sem þeir fengu að endurlífga, skipta um sár, sprauta, hlynna að slösuðum og fleira. Farið var í 46 skóla á vordögum 2021 og 2022 og alls fengu um 1.100 drengir slíka kennslu. Mikil ánægja var með heimsóknirnar, bæði meðal drengjanna og stjórnenda skólanna. Hér má t.d. sjá frétt í RÚV frá vorinu 2021.
Hutfall karla í hjúkrunarfræði og sjúkraliðastörfum á Íslandi er aðeins 3% sem er mun lægra en í þeim löndum sem gjarnan er borið saman við. Markmið verkefnisins var að vekja áhuga stráka á þessum fögum, breyta staðalímyndum og fjölga körlum sem leggja þau fyrir sig. Þess ef vænst að hægt verði að halda áfram með þetta verkefni á næstu árum.
Myndirnar sýna heimsóknir í nokkra skóla á höfuðborgarsvæðinu.