Stuttmyndin „Blóð“ er afrakstur námskeiðs í skapandi greinum sem var hluti meðferðartilboða í geðþjónustu Landspítala veturinn 2021-2022. Námskeiðið er liður í meðferð fólks með geðrofssjúkdóma.
Til að efla virkni skjólstæðinga og þjónustuþega geðþjónustunnar var ákveðið að leita leiða til að mæta þeim á þeirra eigin áhugasviði. Innan geðþjónustunnar á spítalanum hafa listir lengi verið nýttar í meðferð með góðum árangri svo sem tónlist og myndlist. Nú er gengið nokkru lengra í þeim efnum.
Að undanförnu hefur verið leitast við að efla starfsendurhæfingu í geðþjónustunni, ekki aðeins sækja hana til annarra. Á nýliðnum vetri var í þessu sambandi boðið upp á námskeið í skapandi greinum. Námskeiðið varð til meðal annars vegna þess að það hefur sýnt sig að skjólstæðingar geðþjónustunnar hafa komist í vinnu, til dæmis í leikhúsum, vegna starfsendurhæfingar sem þeir hafa verið í. „Að skapa hjálpar okkur öllum til að líða betur,“ segir Halldóra Jónsdóttir yfirlæknir geðþjónustu, „og tónlist er bara eitthvað sem margt ungt fólk er upptekið af“.
Farið var í viðræður við fólk sem starfar í skapandi greinum til að leggja verkefninu lið og búa til námskeið. Viðbrögðin voru mjög góð og til varð námskeið sem haldið var utan veggja spítalans á þeim stöðum þar sem fólkið í skapandi greinunum vann.
Námskeiðið í skapandi greinum skilaði afurð af ýmsum toga og árangurinn af því var í heild góður. Því er stefnt að því að halda áfram að vera með slík námskeið. Meginafurðin af námskeiðinu nú var þó stuttmynd sem ákveðið var að gera og er birt hér. Í kvikmyndagerð er hægt að sameina ýmis listform svo sem myndgerð, grafík, tónlist og búningagerð. Stuttmyndin heitir „Blóð“.