Frá sýkingavarnahjúkrunarfræðingum:
Í dag, 12. maí, minnumst við sýkingavarnahjúkrunarfræðingar ásamt öðrum hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum frumkvöðuls okkar í starfi, Florence Nightingale, á fæðingardegi hennar.
Florence átti þátt í því að leggja grunn að sýkingavörnum á sjúkrahúsum og má segja að hún hafi verið fyrsti sýkingavarnahjúkrunarfræðingurinn. Án þess að vita af tilvist baktería og veira tókst henni á árunum 1854-1856 (Krímstríðið) að draga verulega úr dánartíðni hermanna á herspítala á Krímskaga. Í kjölfar aðgerða sem hún innleiddi féll dánartíðni úr 40% í 2%. Helstu dánarorsakir voru ekki vegna afleiðinga bardaga heldur vegna smitsjúkdóma eins og taugaveiki, kóleru og blóðkreppusóttar. Florence lagði m.a. áherslu á að bæta almennt hreinlæti (þar á meðal handhreinsun og umhirðu sára) og að hafa gott loft hjá sjúklingunum. Hún lét bæta frárennsli skólps og lagði áherslu á hreint vatn og góða lýsingu/sólarljós. Með innleiðingu á ýmsum grunnþáttum sýkingavarna jók hún öryggi sjúklinga svo um munaði. Enn í dag eru sýkingavarnir grunnþáttur í að bæta öryggi sjúklinga og starfsmanna á sjúkrahúsum með því að draga úr spítalasýkingum og dreifingu örvera á milli einstaklinga og í umhverfi.
Sýkingavarnadeild Landspítala óskar öllum hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum til hamingju með daginn.
Við erum öll Florence.