Þrjú bestu veggspjöldin á Vísindum á vordögum á Landspítala 4. maí 2022 voru verðlaunuð sérstaklega. Verðlaunahafarnir voru Sylvía Ingibergsdóttir, Jenny Lorena Molina Estupian og Maríanna Garðarsdóttir. Hér að neðan eru ágrip veggspjalda þeirra.
Öll veggspjöldin á Vísindum á vordögum 2022
Jenny Lorena Molina Estupian: mmCT and dmLT confer vaccine dose sparing effects on protective antibody response in neonatal mice
Jenny Lorena Molina Estupiñan er doktorsnemi í líf- og læknavísindum við læknadeild Háskóla Íslands og vinnur að doktorsverkefni sínu hjá rannsóknateymi um bólusetningar á ónæmisfræðideild Landspítala undir stjórn Ingileifar Jónsdóttur prófessors og Stefaníu P. Bjarnarson dósents. Aðrir doktorsnemar hópsins eru Poorya Foroutan Pajoohian og Auður Anna Aradóttir Pind, sem mun verja doktorsritgerð sína í maí 2022. Aðalrannsóknarefni hópsins eru takmarkanir í ónæmiskerfi nýbura og hvernig hægt er að yfirvinna þær við bólusetningu, meðal annars með notkun ónæmisglæða og bólusetningum um slímhúð. Hópurinn notast við nýburamúsamódel til rannsókna á ónæmissvörum gegn veirum og bakteríum og hefur meðal annars rannsakað ónæmissvör gegn pneumókokkum með próteintengdu fjölsykrubóluefni (Pn1-CRM197) sem notað var í rannsókn Jennyjar. Veggspjald Jennyjar snýr að skammtasparandi áhrifum ónæmisglæðanna dmLT og mmCT, þar sem ónæmisglæðar geta aukið ónæmissvör og mögulega minnkað magn bóluefnis sem þarf til þess að ná fram ónæmisvernd sem minnkar kostnað og nýtir tiltækt magn bóluefna betur. Í rannsókninni voru nýburamýs bólusettar með hlutaskömmtum af Pn1-CRM197 blönduðu ónæmisglæðunum dmLT eða mmCT eða með fullum skammti af Pn1-CRM197 án ónæmisglæða til samanburðar. Niðurstöðurnar sýndu að með notkun ónæmisglæðanna dmLT og mmCT var hægt að minnka bóluefnaskammt Pn1-CRM197 fimm- til áttfalt og eru þeir því efnilegir til skammtaspörunar og minnkunar kostnaðar, sérstaklega þegar framboð bóluefna er takmarkað. Verkefnið er styrkt af Tækniþróunarsjóði og Vísindasjóði Landspítala.
Maríanna Garðarsdóttir: Kerfislæg æðakölkun veldur skerðingu á blóðflæði til heila
Maríanna Garðarsdóttir er röntgenlæknir að mennt frá Sahlgrenska háskólasjúkrahúsinu í Gautaborg og hefur rannsakað blóðflæði til heila sl. ár meðfram starfi hennar sem röntgenlæknir og nú forstöðumaður rannsóknarþjónustu. Maríanna hefur birt um efnið tvær greinar, fjölda ágripa og kynnt verkefnið á vísindaþingum. Verkefnið hófst með rannsókn á blóðflæði til heila í einstaklingum með gáttatif þar sem í ljós kom að einstaklingar með gáttatif höfðu marktækt lægra blóðflæði til heila mælt með segulómun samanborið við þá sem voru í sínus takti og einnig lægra áætlað gegnumstreymi um heila. Einnig var heilarúmmál minna hjá þeim einstaklingum sem höfðu gáttatif samanborið við þá sem ekki höfðu gáttatif og vitræn skerðing sást hjá sama hópi. Áhrifin voru meiri þegar um langvinnt gáttatif var að ræða og voru áhrifin óháð heilaáföllum. Til nánari skoðunar á áhrifum gáttatifs á heilablóðflæði var gerð önnur rannsókn þar sem blóðflæði til heila í hálsæðum var mælt og nú einnig til samanburðar beint í háræðaneti heilans fyrir og eftir rafvendingu í sínus takt. Blóðflæðið jókst marktækt við árangursfulla rafvendingu með báðum aðferðum en var óbreytt hjá þeim sem voru áfram í gáttatifi. Núverandi rannsókn fólst í að bera saman áhrif gáttatifs og kerfislægrar æðakölkunar á heilablóðflæði og kom í ljós að áhrif æðakölkunar, sem er hjarta- og æðasjúkdómur sem eykst með hækkandi aldri og hægt er að meta með stífleika í ósæð, eru sambærileg við áhrif gáttatifs. Aukinn stífleiki í ósæð veldur auknum þrýstingi í hálsslagæðum og óhóflegri þrýstingsbylgju sem getur valdið skemmdum á háræðaneti heilans og heilavef og skertri heilastarfsemi að auki. Áhrif aukins stífleika í ósæð sem merki um kerfislæga æðakölkun tengdist marktækt lægra blóðflæði til heila og eru áhrifin sambærileg þeim sem sjást hjá einstaklingum með gáttatif bæði á formgerð heilans og starfsemi.
Rannsóknarhópurinn samanstendur af Davíð O. Arnar yfirlækni og prófessor sem er leiðbeinandi Maríönnu í doktorsnámi hennar við læknadeild Háskóla Íslands; Sigurði Sigurðssyni geislafræðingi sem er meðleiðbeinandi; Vilmundi Guðnasyni, prófessor við HÍ, og Thor Aspelund, prófessor við HÍ, sem eru allir reyndir vísindamenn og kennarar sem hafa samtals birt á annað þúsund vísindagreinar. Rannsóknarhópurinn hefur í þessu verkefni rannsakað einstaklinga í AGES RS rannsókninni sem er framhald af Reykjavíkurrannsókn Hjartaverndar og skjólstæðinga Landspítala sem komu til rafvendingar.
Sylvía Ingibergsdóttir: Árangur hugrænnar atferlismeðferðar fyrir háskólanemendur sem greindir hafa verið með ADHD
Fyrstu niðurstöður doktorsverkefnis Sylvíu Ingibergsdóttur voru birtar á veggspjaldi á Vísindum á vordögum á Landspítala. Markmið með verkefninu er að kanna árangur af hugrænni atferlismeðferð fyrir háskólanemendur með athyglisbrest með ofvirkni (ADHD). Röskunin getur haft hamlandi áhrif á bæði nám og starf. Skort hefur önnur úrræði en lyfjameðferð fyrir þennan hóp og rannsóknir á árangri viðtalsmeðferðar eru fátíðar. Úrtakið var nemendur Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík sem greinst höfðu með ADHD og var þeim raðað með slembiúrtaki í tvo hópa. Annar hópurinn fékk inngrip en hinn hópurinn fór á biðlista og var boðin meðferð síðar.
Höfundar að þessum hluta rannsóknarinnar:
Sylvía Ingibergsdóttir, MSc, doktorsnemi og deildarstjóri á bráðamóttöku geðdeildar
Eiríkur Örn Arnarsson, PhD, prófessor emeritus við Háskóla Íslands
Eydís Kristín Sveinbjarnardóttir, PhD, dósent við heilbrigðisvísindasvið innan Hjúkrunarfræðideildar Háskóla Íslands og gestadósent við Háskólann á Akureyri
Erla Kolbrún Svavarsdóttir, PhD, prófessor við heilbrigðisvísindasvið innan hjúkrunarfræðideildar Háskóla Íslands
Aðrir í doktorsnefndinni:
Jóhanna Bernharðsdóttir, PhD, lektor við heilbrigðisvísindasvið innan hjúkrunarfræðideildar Háskóla Íslands
Merrie Jean Kaas, PhD, lektor við University of Minnesota
Marta Kristín Lárudóttir, PhD, dósent við tölvunarfræðideild Háskólans í Reykjavík