Helgi Jónsson er heiðursvísindamaður Landspítala 2022 fyrir framúrskarandi framlag til vísinda á ferli sínum. Helgi er sérfræðingur í lyf- og gigtarlækningum við lyflækninga- og bráðaþjónustu Landspítala.
Útnefningin var á Vísindum á vordögum í Hringsal 4. maí 2022. Heiðursvísindamaður Landspítala er útnefndur ár hvert og hefur vísindaráð Landspítala veg og vanda af því. Eins og hefð er fyrir hélt heiðursvísindamaðurinn fyrirlestur um rannsóknir sínar að lokinni útnefningu, afhendingu heiðursskjals og heiðursverðlauna að upphæð 350 þúsund króna.
Helgi Jónsson er fæddur 1952. Hann er kvæntur Kristínu Færseth framkvæmdastjóra og eiga þau fjögur börn og sex barnabörn. Helgi lauk embættisprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands 1978 og öðlaðist lækningaleyfi á Íslandi 1980. Hann stundaði nám, lækningar og rannsóknir við Háskólasjúkrahúsið í Lundi 1981-1989 og lauk þaðan sérnámi í gigtarlækningum 1985. Hann lauk doktorsgráðu í læknisfræði frá Háskólanum í Lundi 1989. Á árunum 1989 til 1995 var hann stundakennari við Háskóla Íslands og sérfræðingur við Landspítala frá 1990 og til dagsins í dag. Dósent í lyflæknisfræði, gigtarlækningum (50%), við HÍ 1995 til 2009 og prófessor í gigtarlækningum við HÍ frá 2009.
Helgi hefur verið öflugur handleiðari unglækna og nema í læknisfræði og líffræði í rannsóknum. Hann hefur setið í doktorsnefndum og dómnefndum auk þess að gegna leiðbeinanda- og ráðgjafarhlutverki í allnokkrum doktors- og meistaraverkefnum.
Helsta áhugasvið Helga er slitgigt og hefur hann rannsakað þann langvinna og bæklandi sjúkdóm í 30 ár. Helstu samstarfsaðilar hafa verið Íslensk erfðagreining og Hjartavernd en Helgi er nú í samstarfi við vísindamenn úr öllum heimsálfum. Markmiðið er ljóst og það er að bæta meðferð sjúkdómsins. Nú er svo komið að það hillir undir lyfjameðferð sem gæti breytt gangi sjúkdómsins verulega, svipað og gerst hefur í mörgum öðrum gigtarsjúkdómum.