Arnar Bragi Ingason var útnefndur ungur vísindamaður Landspítala 2022 á Vísindum á vordögum, uppskeruhátíð vísindastarfs á spítalanum, í Hringsal 4. maí.
Arnar Bragi Ingason lauk stúdentsprófi frá náttúrufræðibraut Menntaskólans í Reykjavík 2013. Hann lauk bakkalársgráðu í læknisfræði frá Háskóla Íslands 2016 og embættisprófi í læknisfræði frá sama skóla 2019. Arnar skráði sig í framhaldinu í doktorsnám í læknavísindum og fer doktorsvörn hans fram 27. maí 2022. Leiðbeinandi hans er Einar Stefán Björnsson prófessor. Samhliða námi hefur hann lokið kandídatsári og einu ári í sérnámi í skurðlækningum við Landspítala. Síðastliðið ár hefur Arnar unnið á meltingarlæknadeild Landspítala við rannsóknarvinnu.
Rannsóknarferillinn hófst þegar Arnar Bragi varði sex mánuðum við hjartaskurðdeild Stanford háskóla á þriðja ári í læknisfræði þar sem hann rannsakaði endurnýjunargetu hjartans í músamódeli. Hann var fyrsti höfundur af grein sem staðfesti niðurstöður fyrri rannsókna um að hjartað hefði getu til endurnýjunar á fyrstu viku lífs í nýburamúsum auk þess sem nýæðamyndunarferli í tengslum við endurnýjunina var ítarlega kortlagt.
Á síðastliðnum þremur árum hefur Arnar einbeint sér að klínískum rannsóknum. Doktorsverkefni hans snýr að því að bera saman blæðingar- og blóðsegatíðni milli mismunandi blóðþynningarlyfja. Hann var fyrsti höfundur að grein sem birtist í Annals of Internal Medicine í haust og sýndi að rivaroxaban hefur aukna tíðni meltingarvegsblæðinga samanborið við aðra beina storkuhemla (e. direct oral anticoagulants).
Auk doktorsverkefnis síns hefur Arnar, undir handleiðslu Martins Inga Sigurðssonar prófessors, rannsakað tíðni og áhættuþætti tengdum viðvarandi ópíóíðanotkun eftir skurðaðgerðir. Hann var fyrsti höfundur að grein sem birtist nýlega í Annals of Thoracic Surgery og sýndi að tíundi hluti sjúklinga sem útleysir ópíóíða eftir opnar hjartaskurðaðgerðir heldur áfram að nota lyfin í meira en þrjá mánuði eftir aðgerð.
Arnar Bragi hefur birt á annan tug ritrýndra greina í erlendum tímaritum og kynnt rannsóknir sínar á fjölda innlendra og erlendra vísindaþinga. Hann hefur hlotið verðlaun fyrir besta vísindaerindi unglæknis á bæði íslenska lyflæknaþinginu og sameiginlegu vísindaþingi skurð- og svæfingarlækna. Hann hefur nám í almennum skurðlækningum við University of Vermont í Bandaríkjunum í júní.