Landspítali er á neyðarstigi
Í ljósi þess að COVID faraldurinn virðist vera á niðurleið eins og merkja má af komum í COVID göngudeild og fjölda innlagna undanfarna daga hefur verið ákveðið að aflétta ýmsum þeim takmörkunum sem hafa verið í gildi um nokkra mánaða skeið. Flestar þessara breytinga taka gildi nú þegar en nokkrar þurfa meiri aðdraganda og undirbúning.
Andinn í þessum afléttingum er fyrst og fremst sá að nú gildir að taka einkennasýni fremur en skima vítt og breitt og einblína þannig á þá sem eru veikir og þarfnast greiningar til að unnt sé að grípa til viðeigandi ráðstafana. Því er lögð áhersla á að einkennasýni sjúklinga séu rannsökuð fyrir öndunarfæraveirum en ekki COVID eingöngu. Að sama skapi er starfsfólk hvatt til að fara í einkennasýnatöku en sóttkví er aflögð með öllu.
Ljóst er að nokkurt verk er framundan að uppfæra gæðaskjöl og leiðbeiningar sem eru víða á vefjum spítalans. Gæðaskjöl sem koma upp sem úrelt eða finnast ekki - þýða einmitt það - að innihald þeirra hefur verið úrelt, a.m.k. í bili.
Talnaupplýsingar um stöðuna á spítalanum eru birtar á www.landspitali.is.
Eftirfarandi breytingar verða gerðar í dag og á næstu dögum:
1. Heimsóknir verða leyfðar á legudeildir Landspítala (ekki bráðamóttökur) með eftirfarandi hætti frá og með 24. mars 2022: Heimsóknartími er að öllu jöfnu virka daga milli kl. 16:30 og 19:30 og frá kl. 14:30 til 19:30 um helgar og á almennum frídögum. Til að byrja með verður leyfður einn gestur til hvers sjúklings á dag og skal heimsóknin ekki vara lengur en klukkustund. Tímasetningar heimsókna geta verið mismunandi milli deilda og er mikilvægt að kynna sér reglur þeirra. Stjórnendur geta áfram veitt undanþágur frá þessu fyrirkomulagi eins og verið hefur. Stefnt er að því að létta frekar á heimsóknartakmörkunum 1. apríl n.k. ef aðstæður leyfa.
2. Leyfi sjúklinga eru áfram heimil þegar þau eru liður í endurhæfingu og/eða útskriftarundirbúningi. Ekki þarf leyfi farsóttanefndar fyrir slíku.
3. Hætta má hólfa- og hópaskiptingu í dag, 24. mars.
4. Sýnatökum starfsmanna á Eiríksgötu 37 verður hætt eftir þessa viku, síðasti sýnatökudagur er föstudagur 25. mars.
5. Sýnatökum starfsmanna í Birkiborg verður haldið áfram enn um sinn en sú breyting verður gerð frá og með mánudegi 28. mars að aðeins verður einn sýnatökutími á dag þ.e. kl. 9.00 virka daga og kl. 10:00 um helgar (þetta kemur allt fram í textaskilaboðum þegar sýnatakan er bókuð). Páskaopnun verður auglýst sérstaklega.
6. Sóttkví C vegna komu yfir landamæri, vegna útsetningar í starfi og vegna endurkomu til vinnu eftir COVID-veikindi verður hætt frá og með 24. mars. Sóttkví B2 (bið eftir landamærasýni) fellur úr gildi á sama tíma og sóttkví B1 sömuleiðis (útsetning í samfélagi eða heimili).
7. Skimanir sjúklinga verða með eftirfarandi hætti frá og með 24. mars:
a. Áfram verða skimaðir þeir sem leggjast brátt inn á legudeildir. Lögð er áhersla á að ef viðkomandi er með öndunarfæraeinkenni þá skal einnig gera rannsókn sem tekur til annarra öndunarfæraveira.
b. Hætta skal öllum vikulegum skimunum þar sem þær hafa verið framkvæmdar en leggja áherslu á einkennavöktun og einkennasýnatökur og hafa þá aðrar veirur í huga auk COVID.
c. Ekki þarf lengur að skima sjúklinga sem flytjast á milli deilda Landspítala.
d. Áfram skal skima sjúklinga sem flytjast á hjúkrunarheimili og aðrar heilbrigðisstofnanir nema þeir hafi haft COVID á síðustu 60 dögum.
8. Þeir sem koma til baka til vinnu eftir 5 daga smitgát vegna COVID-veikinda skulu nota fínagnagrímu á degi 6 og 7 en fylgja síðan reglum spítalans um grímuskyldu og grundvallarsmitgát.
9. Starfsfólk er áfram hvatt til að fara í sýnatöku ef það finnur fyrir einkennum sem gætu samrýmst COVID. Ef COVID er neikvætt þá gæti verið gagnlegt að gera rannsókn sem tekur til annarra öndunarfæraveira og nota þá Tamiflu ef um inflúensu er að ræða (sjá nánari leiðbeiningar frá sýkingavarnadeild um viðbrögð við inflúensu). Þeir sem hafa fengið COVID á síðustu 60 dögum og fá einkenni ættu að fá gerðar rannsóknir á öðrum öndunarfæraveirum.
10. Reglum um grímunotkun verður ekki breytt að svo komnu máli en það verður gert þegar faröldrum öndunarfærasýkinga linnir.
11. Tölulegar upplýsingar verða áfram gefnar út daglega, a.m.k. út mars en mögulega dregið úr upplýsingagjöf eftir það. Upplýsingum verður þó áfram safnað og haldið til haga.
12. Vaktir farsóttanefndar verða áfram út apríl en þær eru virka daga kl. 16:00-21:00 og um helgar og á almennum frídögum frá kl. 10:00-18:00.