Kaupmannasamtök Íslands hafa fært hjarta- og lungaskurðdeild að gjöf tvö tæki til notkunar við hjartaskurðlækningar.
Nýju tækin hafa nú þegar komið að góðum notum í starfseminni. Þau bárust í október 2021 og fóru strax í notkun. Um er að ræða annars vegar Epoc blóðgastæki og hins vegar litla skilvindu. Heildarkostnaður er um 2 milljónir.
Epoc blóðgastæki er blóðmælingatæki sem mælir m.a. hvernig öndunin skilar sér út í blóðrásina. Það er gert með því að mæla hlutþrýsting súrefnis, koldíoxíðs og sýrustig í blóðinu. Eftir tengingu við hjarta- og lungnavélina eru alltaf mæld blóðgös og öndunin og blóðflæðið stillt eftir þessum mælingum. Tækið mælir líka ýmsar jónir sem m.a. segir til um nýrastarfsemi og styrk blóðrauða o.fl. Þessar mælingar eru nauðsynlegar fyrir allar hjartaskurðaðgerðir og endurteknar við lengri hjartaskurðaðgerðir.
Skilvindan er notuð í langtímameðferð með hjarta- og lungnavél á gjörgæslu til að fylgjast með hvort dælan sé að sprengja blóðkorn og þau finnist í blóðvökvanum.
Nýju tækin voru formlega afhent 11. mars og var gefendum þakkaður rausnarskapurinn. Tækin afhentu þrír stjórnarmenn í Kaupmannasamtökunum, þeir Júlíus Jónsson, Ingibjörn Hafsteinsson og Ólafur Björnsson. Með þeim á myndinni eru „perfusionistarnir“, sérfræðingar á hjarta- og lungnavél, Líney Símonardóttir og Bjarnveig Ólafsdóttir.