Ólöf Þóra Þorkelsdóttir, móðir ungs drengs sem þurfti að dvelja á Barnaspítala Hringsins vegna COVID-19, ákvað að þakka fyrir sig með gjöfum og leitaði stuðnings í því meðal fyrirtækja og einstaklinga. Gjafirnar voru afhentar í mars 2022.
Í gjafabréfi sem fylgdi færir gefandinn Barnaspítala Hringsins „hjartans þakkir fyrir frábæra umönnun og þjónustu“ og skrifar meðal annars eftirfarandi:
„Þegar þú ert með veikt barn, þá er það alltaf í fyrsta sæti. Það þarf einhver að hugsa um foreldri sem hugsar um veikt barn, en það eru ekki allir í þannig stöðu að geta verið með einhvern með sér og hvað þá í tímum Covid. Ég endaði með son minn á Barnaspítalanum og var hann mjög veikur af Covid, mettaði illa, fékk lungnabólgu og rínóvírus. Sem gerði það að verkum að við vorum í einangruðu herbergi. Því miður hafði ekki fengist fé til að fá ísskápa á herbergin. Sonur minn hafði lítið sem ekkert að athafast þegar hann hafði orku til. Ég ákvað að taka þetta í mínar hendur og gá hvort að vinir og ættingjar gætu séð af sér 100 kr. til þess að safna kannski fyrir einum sparkbíl. Þar kemur gamla góða klisjan inn, margt smátt gerir eitt stórt. Og vá hvað fólk er almennilegt þegar það tekur höndum saman því við náðum að safna 721.740kr! Fyrir það voru keyptir 2x sparkbílar, spil og próteindrykkir. Restin af upphæðinni (673.256) var svo lögð inn á Barnaspítala Hringsins.“
Í gjafabréfinu var líka listi yfir gjafir og þá sem studdu gefandann, með kæru þakklæti til þeirra:
Heimilistæki fyrir að styrkja okkur um 3x ísskápa.
Rafha fyrir að styrkja okkur um örbylgjuofn.
Myndform fyrir spil og 3x kassa af próteini
Spilavinir fyrir spil og góðan afslátt
Nytjamarkaður ABC fyrir form
Björgvin Unnar, amma og afi fyrir 3x pelahitara
Friðrik Logi og Lolla fyrir 1x pelahitara + pening
Gígja fyrir bækur
Vinir og ættingjar
Meðlimir mæðra tips