Landspítali er á neyðarstigi
Í dag eru 78 sjúklingar með COVID á Landspítala, 74 eru með virkt smit en 4 bíða flutnings af COVID deildum eða eru á gjörgæslu. Á gjörgæslu eru 4 sjúklingar með COVID og allir í öndunarvél.
Um helgina (fö-su) bættust yfir 40 sjúklingar í COVID hópinn. Eins og gefur að skilja eru miklar annir á COVID göngudeild, bráðamóttöku og á COVID deildum vegna þessa auk þess sem tvær deildir á Landakoti eru alfarið með COVID sjúklinga og þeir eru einnig á fjölmörgum öðrum deildum.
Að minnsta kosti 274 starfsmenn eru frá vinnu vegna COVID og fjölmargir af öðrum ástæðum en greinilegt er að margar veirusýkingar herja nú á landsmenn aðrar en COVID.
Talnaupplýsingar um stöðuna á spítalanum eru birtar á www.landspitali.is.
Sérstakar tilkynningar
1. Minnt er á að hægt er að fá bóluefni fyrir inniliggjandi sjúklinga á fimmtudögum. Stjórnendur eru hvattir til að fara vel yfir bólusetningastöðu sjúklinga sinna og bjóða þeim sem ekki eru fullbólusettir upp á bólusetningu. Þá er auðvelt að panta bóluefni með því að setja kennitölu viðkomandi í spjallrás í Heilsugátt sem heitir Bólusetning inniliggjandi.
2. Það eru erfiðir tímar en með því að snúa bökum saman og taka einn dag í einu hljótum við að komast í gegnum þennan skafl.