Landspítali er á neyðarstigi
Í dag liggja 88 einstaklingar með COVID á Landspítala, þar af eru 84 með virkt smit. Nú eru 5 á gjörgæslu, 2 í öndunarvél.
Í gær bættust 16 í hópinn og 16 voru útskrifaðir heim, á aðrar deildir spítalans eða aðrar stofnanir.
Nú eru 308 starfsmenn í einangrun (að lágmarki) en undanfarna daga hafa greinst um og yfir 70 starfsmenn á dag með COVID.
Talnaupplýsingar um stöðuna á spítalanum eru birtar á www.landspitali.is.
Sérstakar tilkynningar
- Mikilvægt er að átta sig á að hið umfangsmikla viðbragð sem nú er í gangi á Landspítala vegna COVID hefur ruðningsáhrif á aðra starfsemi og hefur haft nú um alllanga hríð. Þar má nefna sérstaklega skipulagðar skurðaðgerðir sem stundum eru kallaðar valkvæðar en eru eigi að síður nauðsynlegar án þess að teljast bráðar. Mun minna hefur verið um slíkar aðgerðir en þyrfti og biðlistar því óhjákvæmilega lengst. Þetta hefur mikil áhrif á fjölda fólks sem bíður eftir að vera kallað inn til aðgerðar. Það eina sem hægt er að gera við þessu í bili er að sýna þolinmæði og er sérstaklega biðlað til fólks að sýna þeim sem stýra biðlistum og innköllunum skilning.