Landspítali er á neyðarstigi
Í dag liggja 88 manns með COVID á Landspítala, þar af eru 82 með virkt smit og 6 eru enn á COVID deild og bíða flutnings. Áfram er mikið aðflæði og í gær bættust 26 í hópinn og 15 fóru úr honum. Nú eru sjúklingar með COVID á 16 legudeildum. Stórar hópsýkingar eru á L2 og L4 á Landakoti en enginn þar er alvarlega veikur. Langflestir þeirra sem leggjast inn með COVID koma vegna sýkingarinnar og áhrifa hennar og hefðu að öðrum kosti ekki lagst inn á spítala. Þeir sem greinast óvænt við skimun inniliggjandi verða fæstir mjög veikir en þó eru undantekningar á því.
Á gjörgæslu eru nú tveir einstaklingar, annar þeirra í öndunarvél.
Talnaupplýsingar um stöðuna á spítalanum eru birtar á www.landspitali.is.
Sérstakar tilkynningar
1. Í gær var gefið út endurskoðað gæðaskjal um einangrun inniliggjandi sjúklinga sem hefur verið stytt nokkuð hjá einkennalausum/litlum.
2. Í dag er verið að endurskoða skjal um sóttkví sjúklinga á dag- og göngudeildum og hún felld niður. Inniliggjandi sjúklingar sem koma yfir landamæri þurfa ekki sóttkví í legu ef innlagnarsýni er neikvætt.
3. Textaskilaboðum sem skjólstæðingar fá til að minna á bókaðan tíma verður breytt í dag og felld út atriði sem varða sóttkví og komu yfir landamæri. Einnig er orðalagi varðandi fylgdarmenn breytt örlítið og er rétt að ítreka að ávallt skal leyfa fylgdarmann þegar skjólstæðingur þarfnast aðstoðar hans á einhvern hátt.
4. Lovísa Jónsdóttir hjúkrunarfræðingur hefur komið til liðs við spítalann í tvær vikur til að aðstoða við flæði COVID og COVID sjúklinga í bataferli. Farsóttanefnd er mjög þakklát fyrir hennar mikilvægu hjálp enda gjörþekkir Lovísa spítalann og allt hans flókna gangverk.
5. Lyfjaþjónustan á Landspítala hefur sömuleiðis komið í meira mæli til liðs við COVID flæðið með því að auka þjónustu og viðveru klínískra lyfjafræðinga á A6, A7 og B7. Það er mjög mikilvæg hjálp og ber að þakka þeim fyrir snör viðbrögð við þessari beiðni.
Mönnun og legurými verður áfram áskorun en óhætt er að segja að á Landspítala séu unnin kraftaverk á degi hverjum af frábæru starfsfólki hans.
Við komumst í gegnum þetta saman. Óskum þeim sem eru veikir góðs bata, þeim sem eiga helgarfrí góðrar helgar og hvíldar og þeim sem standa vaktina sendum við baráttukveðjur.