Landspítali er á hættustigi en verið er að skoða hvort ástæða sé til að færa spítalann á neyðarstig
Í dag eru 42 sjúklingar með COVID á Landspítala, einn er á gjörgæslu.
Í gær bættust 11 í hópinn og 16 fóru úr honum, ýmist heim, á aðrar stofnanir eða aðrar deildir innan spítalans.
Starfsmenn í einangrun eru 372 en í gær greindust 75 til viðbótar.
Talnaupplýsingar um stöðuna á spítalanum eru birtar á www.landspitali.is.
Sérstakar tilkynningar
1. Í gær voru gerðar þær breytingar að lokað var fyrir þann möguleika fyrir almenning að panta PCR próf í Heilsuveru. Þessi ráðstöfun á ekki við starfsmenn Landspítala og munu þeir geta pantað PCR próf eins og áður. Þetta á að vera komið í lag en strikamerki geta verið nokkra stund að berast.
2. Eins og fram kom í gær í tilkynningu farsóttanefndar mun verklag vegna landamæra og vegna útsettra starfsmanna ekki breytast að sinni.
a. Starfsmenn sem koma yfir landamærin mega koma til vinnu í sóttkví B2 en þurfa að panta PCR próf á Landspítala sem fyrst eftir heimkomu og aftur á 4. degi.
b. Starfsmenn með staðfesta COVID sýkingu eiga að vera frá vinnu a.m.k. 5 daga, þeir mega koma til vinnu á 6. degi ef einkennalausir. Sóttkví C eftir endurkomu til vinnu er nú 5 dagar- fyrstu tveir með fínagnagrímu.
c. Ef þörf er á vinnuframlagi starfsmanns í einangrun þá skal yfirmaður viðkomandi hafa samband við farsóttanefnd með rökstuðningi fyrir undanþágu frá einangrun.
Engar breytingar verða gerðar á grímuskyldu eða heimsóknarbanni. Búast má við að faraldurinn sæki mjög í sig veðrið á næstunni og frumskylda Landspítala er að verja sjúklinga og starfsmenn eins og kostur er.
Markmiðið er að fletja kúrfuna þannig að stofnunin verði ekki órekstrarhæf vegna forfalla starfsmanna.
Farsóttanefnd og viðbragðsstjórn hvetja landsmenn til að sýna heilbrigðisstarfsfólki um allt land þá tillitssemi að fara varlega í leik og starfi.