Landspítali er á hættustigi
Nú eru 42 sjúklingar í einangrun með COVID á Landspítala. Einn er á gjörgæsludeild.
Í gær bættust 11 í hópinn og 9 fóru úr honum.
Enn greinast sjúklingar á Vífilsstöðum en þar eru nú 9 sjúklingar í einangrun en enginn þeirra er mikið veikur.
Smit er mjög dreift um spítalann, bæði hjá starfsmönnum og sjúklingum en nú eru COVID sjúklingar á 14 deildum.
Mönnun er víða áskorun en í dag er sérstakur fókus á bæklunarskurðdeildir, þar er mikill fjöldi starfsmanna í einangrun.
Í gær greindust 82 starfsmenn en í morgun var greint frá því að yfir 500 starfsmenn væru í einangrun. Þessi fjöldi er ekki réttur því ekki var búið að útskrifa skv. nýju verklagi, þ.e. eftir 5 daga einangrun. Hið rétta er að 361 starfsmaður er í einangrun í dag. Þetta er þó með þeim fyrirvara að ekki er komið í ljós hversu margir starfsmenn treysta sér til vinnu eftir 5 daga einangrun og hverjir þurfa að vera lengur heima.
Starfsmenn Landspítala sem hafa lokið 5 daga einangrun og treysta sér til að koma til vinnu eru vinsamlega beðnir um að gefa sig fram við yfirmann sinn.
Talnaupplýsingar um stöðuna á spítalanum eru birtar á www.landspitali.is.