Bláum starfsmannafatnaði var dreift hjá Landspítala Fossvogi nú í annarri viku febrúarmánaðar 2022. Þetta er liður í endurnýjun á starfsmannafatnaði á Landspítala.
Starfsfólk Landspítala hefur lengi kallað eftir lituðum buxum og þetta eru því tímamót. Bláa settið er afrakstur vinnu sem byggir á nánu samráði við starfsfólk, bæði um snið og liti. Niðurstaðan varð sú að starfsfólk vildi einföldun á úrvali og hvít og blá föt.
Bláu fötin eru í sama sniði og hvítu fötin sem byrjað var að nota í Fossvogi fyrr í sumar og verður eingöngu dreift þar til að byrja með. Bláum óléttubuxum verður þó dreift á öðrum starfsstöðvum strax. Næsta skref er útboð og er áætlað að allar starfsstöðvar verði komnar með nýju fötin, blá og hvít, í síðasta lagi 2023.
Bláa efnið í litnum „Moonlight Blue“ er úr „tencel“ (50%) og endurunnu „polyester“ (50%). Það hefur ýmsa kosti fram yfir bómullina (50%) og „polyester “(50%) sem er í hvíta fatnaðinum. Bláa efnið er þannig liprara, ógegnsærra og umhverfisvænna. Tencel - lyocell trefjar eru framleiddar úr trjámassa. Þær þurfa minna vatn og efni en bómullarræktun og er framleiðsla trefjanna sömuleiðis umhverfisvænni. Efnið uppfyllir umhverfiskröfur Svansins. Einnig þarf minni orku til að þvo og þurrka tencelefnið.