„Betri gjörgæslumeðferð með gagnasjá“ fékk Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands 2022 sem afhent voru við hátíðarlega athöfn á Bessastöðum 10. febrúar. Verkefnið var í samvinnu Landspítala og Háskóla Íslands.
Að verkefninu um betri gjörgæslumeðferð með gagnasjá unnu Margrét Vala Þórisdóttir og Signý Kristín Sigurjónsdóttir, báðar með BS. í hagnýtri stærðfræði við Háskóla Íslands, og Valgerður Jónsdóttir, BS. í rafmagns- og tölvuverkfræði við Háskóla Íslands.
Verkefnið fólst í því að búa til gagnasjá fyrir gjörgæsludeild Landspítala og er nú þegar unnið að því að innleiða hana í tölvukerfi spítalans.
Leiðbeinendur voru Martin Ingi Sigurðsson, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands og yfirlæknir á svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala, og Rögnvaldur Jóhann Sæmundsson og Tómas Philip Rúnarsson, prófessorar við iðnaðarverkfræði, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild Háskóla Íslands.
Sjá nánar frétt á vef forseta Íslands.
(Meðfylgjandi mynd er af www.forseti.is)