Landspítali er á hættustigi
Í dag liggja 30 sjúklingar með COVID á Landspítala. Þar af eru 28 með virkt smit og í einangrun. Á gjörgæslu eru 2 sjúklingar sem eru báðir lausir úr einangrun. Annar þeirra er í öndunarvél og ECMO (hjarta- og lungnavél).
Um helgina bættust 20 nýir sjúklingar í COVID hópinn; inniliggjandi, greindir við innlögn og vegna COVID frá göngudeildinni.
Nú eru COVID sjúklingar á hjartadeild, meltingar- og nýrnadeild, Vífilsstöðum, fæðingarvakt, bæklunarskurðdeild, barnadeild, geðdeild, lungnadeild, smitsjúkdómadeild og gjörgæsludeildinni við Hringbraut.
Meltingar- og nýrnadeildin er lokuð fyrir nýjum innlögnum, aðrar deildir eru opnar en víðtækar skimanir eru í gangi í dag og næstu daga í tengslum við smit hjá sjúklingum og starfsmönnum.
Talsverðar annir eru í COVID göngudeild og daglega koma 15-25 einstaklingar til mats og meðferðar.
Talnaupplýsingar um stöðuna á spítalanum eru birtar á www.landspitali.is.
Sérstakar tilkynningar
1. Í dag taka gildi nýjar reglur um einangrun einkennalausra og þeirra sem hafa mjög væg einkenni COVID sýkingar en þeir eru nú í 5 daga einangrun ef framangreind skilyrði eru uppfyllt. Starfsmenn Landspítala sem snúa aftur til vinnu eftir COVID mega koma eftir 7 daga ef þeir eru hitalausir og almennt við góða líðan. Ef einkenni eru enn til staðar er ráðlagt að vera 10 daga heima og lengur ef veikindin eru langdregin. Þá er fólk hvatt til að leita læknis ef einkenni svo sem hiti er viðvarandi. Starfsmenn vinna í sóttkví C í 7 daga eftir að þeir koma til baka til starfa og skrá sig í þar til gert form á vefnum.
2. Sjúklingar sem leita til Landspítala og hafa lokið 5 daga einangrun eiga einnig að vera í einangrun að lágmarki 7 daga ef þeir hafa verið einkennalausir eða einkennalitlir. Ef þeir eru enn veikir skal einangra lengur og þá í samráði við smitsjúkdómalækna.
3. Ítrekað er að allar legudeildir þurfa að vera tilbúnar til að sinna COVID sjúklingum. Þeir eru ekki fluttir á smitsjúkdómadeild nema vera COVID veikir eða önnur sjónarmið vegi þyngra.
4. Ítrekað er að sjúklingar með COVID mega leita sér heilbrigðisþjónustu og þurfa allar göngudeildir og rannsóknardeildir að vera í stakk búnar til að sinna COVID smituðum ef erindið getur ekki beðið eftir að einangrun ljúki.
5. Vegna gríðarlegrar útbreiðslu smita í samfélaginu er ógjörningur að fyrirbyggja með öllu að inniliggjandi sjúklingar smitist hver af öðrum eða af starfsfólki. Áfram er kappkostað að hindra smitdreifingu en það verður æ erfiðara. Vert er þó að taka fram að þrátt fyrir að daglega greinist nokkrir sjúklingar óvænt á bráðamóttöku hefur ekkert smit til annarra sjúklinga verið rakið til slíkra kringumstæðna síðastliðnar vikur eða mánuði.