Frá Landspítala 6. febrúar 2022:
Aftakaveður með rauðri viðvörun verður á morgun, mánudaginn 7. febrúar 2022, á höfuðborgarsvæðinu og víðar. Búist er við miklum truflunum á reglulegri starfsemi Landspítala.
Á deildum með sólarhringsstarfsemi er mælst til þess að starfsfólk á morgunvakt verði í samskiptum við sínar deildir vegna mætingar. Líklegt er að sumt starfsfólk þurfi að koma inn á miðnætti í kvöld og gista eða koma inn síðar þegar veðri slotar, sem verður væntanlega um klukkan níu eða tíu í fyrramálið. Jafnframt mun næturvaktin ekki komast heim af vaktinni fyrr en á sama tíma. Þetta verður gert í samráði við stjórnendur.
Gert er ráð fyrir að það starfsfólk sem ekki þarf nauðsynlega að koma til starfa í fyrramálið sinni störfum sínum heima og/eða bíði eftir að veður lægi.
Engin dag- og göngudeildarþjónusta verður á Landspítala á morgun og fá sjúklingar úthlutað nýjum tímum. Allir bókaðir tímar verða því felldir niður á morgun, mánudag.
Morgunmatur verður með öðru sniði en vant er og fá deildar nánari upplýsingar um það sem og með hádegismat. Unnið er að því að koma aukasendingum á deildir.
Fylgist með frekari tilkynningum á miðlum Landspítala og Almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra.