Landspítali er á neyðarstigi
Í morgun kl. 9 lágu 39 sjúklingar á spítalanum með COVID, þar af 29 með virkt smit og í einangrun. Á gjörgæslu eru 3, einn þeirra í einangrun og 3 í öndunarvél.
Í gær voru 2 innlagnir og 8 útskriftir.
Áfram fjölgar í fjarþjónustu COVID göngudeildar og um 20 manns koma daglega til mats og meðferðar í Birkiborg. Ætla má að talsverður fjöldi þeirra myndi leggjast inn ef göngudeildarinnar nyti ekki við.
Starfsmenn í einangrun eru 153 og fjölgar heldur á milli daga, 127 eru í sóttkví og hluti þeirra við störf skv. ströngum reglum.
Síðastliðinn sólarhring bættust við 2 sjúklingar og 8 voru útskrifaðir.
Talnaupplýsingar um stöðuna á spítalanum eru birtar á www.landspitali.is.
Sérstakar tilkynningar
1. Rakningarteymi Landspítala hefur tekið upp nýja nálgun á sóttkví C hjá starfsmönnum sem eru útsettir í starfi. Í stað 6 daga áður með tveimur sýnatökum verður vinnusóttkví C vegna útsetningar nú 4 dagar og einungis ein sýnataka á 4. degi. Þetta er gert í ljósi hegðunar ómíkron afbrigðisins. Teymið áskilur sér rétt til að breyta þessari nálgun í stöku tilvikum.
2. Rakningarteymið þakkar kærlega fyrir alla veitta aðstoð við fjölda rakninga undanfarið en þar hafa komið að stjórnendur og starfsmenn einstakra eininga og heilbrigðisgagnafræðingar frá sjúkraskrár- og skjaladeild.
3. Í dag var kynnt nýtt spálíkan Landspítala og Háskóla Íslands sem gefur fyrirheit um betri tíð en fyrri líkön. Mikilvægt er að skoða gögnin vel og fylgjast vel með þróun næstu daga. Greinileg teikn eru á lofti um að ómíkron afbrigði veirunnar valdi minni veikindum og leiði til færri gjörgæsluinnlagna. Það ber þó að hafa í huga að fjöldi daglegra smita í samfélaginu hefur bein áhrif á hversu margir þurfa að leita til spítalans með COVID smit en af öðrum ástæðum. Það verður verkefni næstu vikna að sinna margvíslegum heilsufarsvanda þessa hóps en halda jafnframt áfram að minnka líkur á smitdreifingu með sóttkví, einangrun og smitrakningu.
4. Í daglegri upplýsingagjöf spítalans um fjölda inniliggjandi með COVID er ævinlega tilgreint hve margir hafa lokið einangrun en glíma við eftirköst og þarfnast frekari meðferðar. Þessi hópur er ekki inni í forsendum spálíkansins sem byggir m.a. á sögulegum gögnum um fjölda innlagðra í einangrun.