Sérhæfð endurhæfingargeðdeild Landspítala var nú í ársbyrjun 2022 flutt frá Kleppi á 1. hæð á Landspítala Hringbraut þar sem móttökugeðdeild 33A hefur verið.
Sérhæfð endurhæfingargeðdeild var lokuð legudeild sem sérhæfði sig í meðferð og endurhæfingu einstaklinga með geðrofssjúkdóma og í flestum tilfellum tvígreiningu, þ.e. með bæði geðrofssjúkdóm og vímuefnavanda. Á deildinni starfaði þverfaglegt teymi sem samanstóð af læknum, hjúkrunarfræðingum, sálfræðingi, félagsráðgjafa, iðjuþjálfa og stuðningsfulltrúum/ráðgjöfum. Meðferð á deildinni byggðist m.a. á virknimeðferð, meðferð við neikvæðum einkennum, samtalsmeðferð, fræðslu og lyfjameðferð, allt eftir þörfum hvers og eins. Áhersla var lögð á hlýlegt, öruggt og rólegt umhverfi. Einnig var sérstök áhersla lögð á að veita aðstandendum stuðning og fræðslu.
Breytt starfsumhverfi hefur kallað á breyttar áherslur í starfseminni. Markmiðið með flutningunum er að þjappa þjónustunni betur saman og tryggja meiri samfellu í meðferð. Við Hringbraut sameinast sérhæfða endurhæfingargeðdeildin hluta af móttökugeðdeild 33A og mun bera heitið meðferðargeðdeild geðrofssjúkdóma 33A. Eins og nafnið bendir til verður nýja deildin sérhæfð deild fyrir einstaklinga með geðrofssjúkdóm frá meðferð við bráðum veikindum og yfir í endurhæfingu í samvinnu við aðrar einingar geðþjónustunnar. Breytingin felur í sér fækkun rýma en skapar mikilvægt tækifæri til aukinnar sérhæfingar og meiri samfellu í þjónustu við sjúklingana.
Á meðferðargeðdeild geðrofssjúkdóma 33A verða 16 legurými þar sem 10 rými eru ætluð einstaklingum með bráð veikindi og 6 rými til endurhæfingar.
Myndir: Flutningur sérhæfðrar endurhæfingargeðdeildar frá Kleppi að Hringbraut