Landspítali er á neyðarstigi:
Í dag liggja 43 sjúklingar á Landspítala með COVID, þar af eru 35 með virkt smit og í einangrun. Á gjörgæslu eru 6 sjúklingar og 4 í öndunarvél. Karlmaður á tíræðisaldri lést vegna COVID á síðasta sólarhring. Í gær bættust 5 sjúklingar í COVID hópinn, þar af greindust 4 við komu eða í innlögn. 7 voru útskrifaðir, þar af eitt andlát.
Nú liggja alls 6 sjúklingar með COVID á Landakoti og eru áframhaldandi skimanir starfsmanna og sjúklinga fyrirhugaðar næstu daga. Á hjartadeild greindust þrír inniliggjandi sjúklingar í gær og stendur rakning yfir vegna þess.
Talnaupplýsingar um stöðuna á spítalanum eru birtar á www.landspitali.is.
- Öll starfsemi Landspítala er löskuð vegna COVID álags þar sem fjöldi inniliggjandi, fjöldi starfsmanna í einangrun og fjöldi smita sem upp koma daglega í starfseminni draga mjög úr þrótti spítalans til að sinna öllum þeim verkefnum sem honum eru falin og til að veita bestu mögulegu heilbrigðisþjónustu. Mönnun COVID viðbragðsins dregur til sín mikinn mannskap alls staðar að en einnig eru miklar annir vegna annarra sjúklinga. Sem dæmi má nefna að nú eru aðeins 45% skurðstofa Landspítala í notkun aðallega vegna þess að starfsfólkið er er að sinna COVID sjúklingum. Bráðaaðgerðum og krabbameinsaðgerðum er forgangsraðað en mjög mörgum aðgerðum er frestað áfram. Þar á meðal eru t.d. aðgerðir vegna brota sem oft er miðað við að gera innan viku en sumar verða að bíða lengur, ýmist vegna ástæðna tengdum áverka eða vegna takmarkana tengdum COVID ástandi.
- Smit hjá inniliggjandi sjúklingum er mikil áskorun því nú verða allar deildir að sinna sínum COVID sjúklingum. Þeir eru ekki fluttir á COVID deildir nema þeir séu veikir af COVID og þurfi sérhæfða meðferð.