Landspítali er á neyðarstigi
Í morgun kl. 9 lágu 45 sjúklingar með COVID á Landspítala. Af þeim voru 39 með virkt smit og í einangrun. Á gjörgæslu eru 7 þar af 4 í öndunarvél. Í gær bættust 9 einstaklingar í COVID hópinn.
Smit greindist hjá inniliggjandi sjúklingum á Landakoti og er deild K2 nú lokuð fyrir innlagnir og skimanir í gangi. Sama gildir um K1, þar eru nú 4 COVID sjúklingar og allir starfsmenn í vinnusóttkví.
Smitsjúkdómadeildin er nær full og lungnadeildin hefur þegar tekið allmarga COVID sjúklinga. Verið er að undirbúa B7 sem COVID deild nr. 3.
Miklar annir eru í fjarþjónustunni og eru nú alls 8.551 þar af eru 2.558 börn. Í gær komu 24 einstaklingar til mats og meðferðar í göngudeildinni.
133 eru gulir og enginn rauður.
Talnaupplýsingar um stöðuna á spítalanum eru birtar á www.landspitali.is.
- Flæði annarra sjúklinga en COVID sjúklinga er nú orðið mjög þungt og flókið og hefur verið settur á laggirnar sérstakur starfshópur til að vinna því máli framgang. Aðflæði á bráðamóttöku er mjög mikið og sífelld áskorun að útvega legurými.
- Í dag voru gefin út tvö uppfærð gæðaskjöl sem stjórnendur eru beðnir um að kynna sér vel - og kynna starfsfólki. Annað fjallar um sóttkví B1 og hitt um afléttingu einangrunar hjá inniliggjandi sjúklingi. Skjölin eru í gæðahandbók á innra neti.
Við göngum í gegnum erfiða tíma þar sem ekki er fyllilega ljóst hvað verður en samstaðan og samvinnan innan Landspítala og við allar heilbrigðisstofnanir í landinu eru okkar mesti styrkur.