Landspítali er á neyðarstigi
Í morgun um kl. 9 lágu inni með COVID 30 sjúklingar. Þar af eru 25 í einangrun og 5 sem eru lausir úr einangrun en þarfnast áframhaldandi meðferðar. Á gjörgæsludeild eru 8 sjúklingar, 7 í einangrun, 5 í öndunarvél og eru 6 þeirra óbólusettir.
Í gær voru 6 innlagnir og 4 útskriftir, þar af eitt andlát á gjörgæslu.
Í fjarþjónustu eru nú 8.511, þar af 1.961 barn. 208 eru í auknu eftirliti (gulir) og 7 eru á rauðu og þarf að taka til meðferðar og jafnvel innlagnar í einhverjum tilvikum. Í gær komu 22 einstaklingar til mats og meðferðar í göngudeild.
Starfsmenn í einangrun eru 207 og í sóttkví skráðir 183, þar af eru 58 við störf í sóttkví B.
Sérstakar tilkynningar í dag
1. Þar sem töluverð aukning er í því að nýinnlagðir greinist með COVID í innlagnasýni er öruggast að þeim sé sinnt með fínagnagrímu þar til niðurstaða liggur fyrir. Ekki á að tefja flutning á deild þó niðurstöður séu ókomnar við innlögn.
2. Starfsmenn sem fengu COVID í fyrri bylgjum og fengu síðan Janssen bóluefni sem örvun í vor/sumar eru eindregið hvattir til að fá örvunarbólusetningu sem fyrst ef 5 mánuðir eru liðnir frá Janssen bólusetningu. Bólusetningar er alla virka daga í Laugardalshöll kl. 10-15. Ekki þarf að panta tíma.
3. Allir aðrir starfsmenn sem fengu seinni bólusetningu fyrir meira en 5 mánuðum eru hvattir eindregið til að fara í örvunarskammt sem fyrst - sérstaklega þeir sem hafa fengið einn skammt af Janssen bóluefni.
4. Nú eiga starfsmenn sem smitast af COVID að skrá yfirmann sinn í hlekk sem smitrakningateymi Almannavarna sendir sjálfvirkt í gegnum rakningakerfið. Þá sendist póstur á yfirmenn en þeir eru vinsamlega beðnir um að fylla ekki inn nöfn mögulega útsettra starfsmanna heldur láta rakningateymi Landspítala um að rekja og ákveða úrlausn og aðgerðir. Þessa pósta má því hunsa því málin eru leyst innanhúss.
5. Á sama hátt ættu starfsmenn ekki að skrá samstarfsmenn sína í sóttkví nema þeir hafi umgengist utan vinnu en innan rakningatímabils.