Landspítali er á neyðarstigi
Í dag liggja 28 sjúklingar á Landspítala með COVID. 24 eru í einangrun, 4 eru að ná sér. Á gjörgæslu eru nú 8 manns, 6 þeirra í öndunarvél og 7 eru óbólusettir.
Í gær greindist sjúklingur við innlögn á hjartadeild og annar greindist á Landakoti. Þá eru tveir sjúklingar með vafasvör sem þarfnast endurtekinnar sýnatöku.
Flæði sjúklinga gengur hratt og daglega eru 4-6 innlagnir eða greiningar inniliggjandi og álíka margar útskriftir. Flestir sem greinast inniliggjandi geta fljótlega farið annað til að ljúka einangrun en þeir sem leggjast inn með COVID og vegna annarra vandamála þurfa að jafnaði lengri legu.
8.554 eru fjarþjónustu á COVID-19 göngudeild, þar af 1.955 börn.
Á gulu eru 265 einstaklingar – þrír á rauðu. Í gær komu 22 til meðferðar í göngudeild. Þess utan eru daglegar sýnatökur og mótefnamælingar.
Nú eru 198 starfsmenn í einangrun og 142 í sóttkví, þar af eru 51 við störf í vinnusóttkví B. Þessar fjarvistir hafa mikil áhrif á alla starfsemi.
Talnaupplýsingar um stöðuna á spítalanum eru birtar á www.landspitali.is.
-
Miklar annir eru í smitrakningum á fjölda starfseininga Landspítala. Spítalanum ber að grípa til allra ráða til að verjast því að smit berist inn í starfsemina. Meðal þeirra aðgerða er eftirfarandi:
1. Heimsóknarbann nema með undantekningum sem gerðar eru af stjórnendum viðkomandi deilda við sérstakar aðstæður.
2. Leyfi sjúklinga eru ekki heimil eins og er.
3. Einstakar starfseiningar verða að setja reglur t.d. um viðveru maka við ómskoðanir þungaðra kvenna. Það er gert til þess að vernda lítinn og mjög sérhæfðan hóp starfsmanna sem ekki getur kallað til varamenn ásamt því að vernda skjólstæðinga sem bíða á biðstofum eftir nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu. Fólk er vinsamlega beðið um að virða þessar reglur og ástæður þess að þær eru settar.