Ákveðið hefur verið að setja Landspítala á neyðarstig.
Eins og kunnugt er hefur álag verið mikið á Landspítala lengi og mjög vaxandi undan farnar vikur. Það á sér margar skýringar en fyrst ber að nefna mikla og hraða útbreiðslu á Covid-19 í samfélaginu sem og innan spítalans en nú er svo komið að yfir 100 starfsmenn geta ekki mætt til vinnu og sinnt sjúklingum vegna COVID smits. Annar eins hópur er í sóttkví og hefur verið gripið til þess neyðarúrræðis að kalla inn til vinnu starfsmenn sem eru skilgreindir í sóttkví í samfélaginu að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.
Tiltekinn hluti legurýma er sérútbúinn fyrir sjúklinga sem eru með COVID og þau rými flest í notkun og ekki laus fyrir aðra. Innlögnum á spítalann vegna COVID fer fjölgandi og nú hafa bæst við smit sem hafa hafa greinst óvænt innan spítalans t.d á bráðamöttökum, hjartadeild, Landakoti og fleiri deildum.
Nú er svo komið að margar deildir þurfa að sinna COVID smituðum skjólstæðingum þar sem þeir greinast. Við þetta bætist síðan að ekki hefur náðst að útskrifa fólk sem þegar hefur lokið meðferð á spítalanum.
Að undanförnu hafa heilbrigðisráðuneyti, Sjúkratryggingar Íslands, forstjórar heilbrigðisstofnana um landið og forstjóri Landspítala verið í þéttu samstarfi um flutning sjúklinga sem geta lokið sjúkrahúslegu eða endurhæfingu á öðrum heilbrigðisstofnunum.