Landspítali er á hættustigi
Nú liggja 11 manns á Landspítala vegna COVID. Átta eru í einangrun, tveir á gjörgæslu og báðir í öndunarvél.
1.560 eru í símaeftirliti á Birkiborg, þar af 571 barn. Á gulu eru 70 einstaklingar, enginn á rauðu.
Í gær greindust 195 manns með COVID smit.
- Fjöldi smita undanfarna daga er mikið áhyggjuefni ásamt hraðri útbreiðslu ómíkron afbrigðisins í nágrannalöndum okkar.
- Þátttaka í örvunarbólusetningu meðal starfsmanna Landspítala hefur verið mjög góð en betur má ef duga skal. Þeir starfsmenn sem eiga eftir að fá örvun og eru komnir á tíma (5 mánuðir frá seinni bólusetningu) eru eindregið hvattir til að fara í Laugardalshöll og fá bólusetningu. Þjónustutími er auglýstur á vef Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Bólusetningar til áramóta - Verið er að skoða möguleika á að bjóða upp á örvunarbólusetningar fyrir starfsfólk á Landspítala í næstu viku. Það verður auglýst sérstaklega og fólk beðið um að skrá sig.
- Ef óskað er eftir bólusetningu fyrir inniliggjandi sjúklinga þá er best að senda kennitölu viðkomandi í Heilsugátt til verkefnastjóra farsóttanefndar.
- Eins og fram kom í tilkynningu fyrr í vikunni var nú 15. desember létt lítillega á heimsóknarbanni sem staðið hefur frá 6. nóvember. Það var gert til að koma til móts við óskir sjúklinga, aðstandenda og deilda. Farsóttanefnd mat það svo að vegna góðrar bólusetningastöðu þjóðarinnar, gildandi sóttvarnarráðstafana á Landspítala og ekki síst vegna þess að fjölmargir atburðir sem hafa orðið síðustu mánuði hafa ekki leitt til dreifingar smits nema í undantekningartilfellum, væri rétt og sanngjarnt að leyfa einn bólusettan heimsóknargest á dag til hvers sjúklings. Þessi ákvörðun er í stöðugri endurskoðun og verður næst endurmetin mánudaginn 20. desember. Þá verður tekin afstaða til heimsókna og leyfa um hátíðarnar í síðasta lagi 22. desember.
Heimsóknartímar