Heilbrigðisráðuneytið fól árinu 2021 stjórnendum á Landspítala að koma á fót almennum líknarrýmum fyrir aldraða sjúklinga. Þessi ráðstöfun er í samræmi við áherslur ráðuneytisins sem settar eru fram í fimm ára aðgerðaráætlun um líknarþjónustu.
Í ljósi þessa hefur verið unnið að því að níu rúm á deild L5 á Landakoti verði skilgreind sem líknarrými fyrir 67 ára eða eldri. Stefnt er að því að rýmin verði opnuð eitt og eitt eftir því sem aðrir sjúklingar sem fyrir eru á deildinni útskrifast.
Samvinna hefur verið um verkefnið á milli kjarna öldrunar- og endurhæfingarþjónustu og krabbameinskjarna. Undirbúningur hefur verið í höndum stjórnenda á deildinni og líknarmiðstöðvar Landspítala sem m.a. hefur haft umsjón með fræðslu og þjálfun starfsfólks á L5.
Líknardeild á Landakoti er ætluð deyjandi sjúklingum eða sjúklingum með sjúkdóm á lokastigi sem eru 67 ára eða eldri og með sjúkdóm sem takmarkar lífslíkur/ævilíkur við nokkrar vikur (6-8 vikur eða minna). Áhersla meðferðar er eingöngu á að draga úr einkennum og vanlíðan og tryggja að sjúklingur geti dáið með reisn.
Beiðnir um innlögn eru metnar af líknarráðgjafarteymi Landspítala í samvinnu við deildarstjóra líknardeildar L5. Beiðnir geta komið frá öllum deildum Landspítala, þar á meðal líknarþjónustu HERU en einnig úr heimahúsi frá heimahjúkrun og/eða SELMU, sérhæfðu öldrunarteymi í heimaþjónustu. Líknarráðgjafarteymið metur beiðnina úr frá innlangnarskilmerkjum líknardeildar L5 sem hafa verið gefin út í gæðaskjali í gæðahandbók Landspítala.
Yfirlæknir á líknardeild L5 er Pálmi V. Jónsson og deildarstjóri er Gunnhildur María Kildelund.
Líknardeild L5 - innlagnarskilmerki