Landspítali er á hættustigi
Í dag liggja 17 sjúklingar á Landspítala vegna COVID. Þar af eru 11 í einangrun (níu á smitsjúkdómadeild og tveir á gjörgæslu). Alls eru fimm sjúklingar á gjörgæslu vegna COVID og fjórir þeirra í öndunarvél.
Í símaeftirliti eru 1.380, þar af 438 börn. 83 eru gulir, enginn rauður. Í gær komu fjórir einstaklingar til mats og meðferðar í göngudeild en enginn þurfti að leggjast inn.
40 starfsmenn eru fjarverandi vegna einangrunar og sóttkvíar.
Heimsóknir og leyfi
- Talsvert er spurt um heimsóknir og leyfi sjúklinga. Enn gildir almennt heimsóknarbann en stjórnendum er heimilt að gera undanþágur eins og aðstæður krefjast hverju sinni. Um leyfi gildir enn hið sama að þau eru heimil ef þau eru hluti af endurhæfingu og/eða undirbúningi fyrir útskrift.
- Til skoðunar er að létta á heimsóknarbanni frá og með 15. desember en þó með talsverðum takmörkunum áfram. Nánar verður tilkynnt um fyrirkomulagið í næstu viku. Talsvert er spurt um leyfi yfir hátíðarnar. Reynt verður að mæta því á sem öruggastan hátt en ekki er tímabært að gefa út strax hvernig útfærslan verður.