Í dag liggja 22 sjúklingar á Landspítala vegna COVID. 17 þeirra eru í einangrun, 13 á smitsjúkdómadeild, einn á bráðageðdeild og þrír á gjörgæslu, tveir þeirra í öndunarvél.
1.540 eru í símaeftirliti á Birkiborg, þar af 477 börn. Á gulu er 121 einstaklingur og einn er rauður.
Í gær komu átta til meðferðar í göngudeild, þrír lögðust inn.
42 starfsmenn eru fjarverandi vegna einangrunar (24) og sóttkvíar (18). 151 er í sóttkví C.
Talnaupplýsingar um stöðuna á spítalanum eru birtar á www.landspitali.is.
- Í gær, 30. nóvember 2021, lauk sýnatökum vegna smits sem kom upp á B4 bráðaöldrunarlækningadeild í síðustu viku. Enginn greindist jákvæður í tengslum við það smit og er deildin því laus úr sóttkví og opin fyrir innlagnir.
Starfsfólk B4 á mikið hrós skilið fyrir góða fylgni við gildandi sóttvarnarráðstafanir og að koma þannig í veg fyrir dreifingu smits. Þær ráðstafanir, ásamt því að allt starfsfólk deildarinnar og langflestir sjúklinganna eru bólusettir, eru þau verkfæri sem duga best í baráttunni við COVID. - Talsvert er spurt um möguleika á að halda fundi með starfsfólki. Farsóttanefnd telur að vegna góðrar bólusetningarstöðu starfsfólks og leikni þess í að nota grímur, gæta að fjarlægð og hreinsa hendur sé óhætt að slaka á því fundarbanni sem ríkt hefur undanfarið.
Frá og með 1. desember er heimilt að halda fundi þar sem gætt er að eins metra fjarlægð og allir eru með grímu. Starfsfólk í sóttkví C á ekki að sækja fundi. Til eru viðmið fyrir nokkur fundarherbergi á Landspítala um fjölda sem getur verið í rýminu miðað við eins metra reglu og eru þau talin upp hér að neðan. Í öðrum rýmum þarf ábyrgðarmaður fundar að áætla fjölda með hliðsjón af gildandi fjarlægðamörkum. Eindregið er mælt gegn því að bera fram veitingar á slíkum fundum og ákjósanlegt er að hver og einn gangi rakleiðis til sætis og síðan út aftur. Gott er að leggja á minnið hverjir sitja næst manni ef svo óheppilega skyldi vilja til að rakningarteymið þyrfti að skoða fundinn síðar.
- Hringsalur (Hb) - 30
- Ásinn (Hb) - 28
- Skásalir (Hb) - 20
- Tvisturinn (Hb) - 8
- Blásalir (Fv) - 24
- Skálaherbergi Fossvogi - 20
- Víðihlíð 4 (Ska) - 18
Unnið verður að því að skrá í bókunarkerfin leyfilegan fjölda í fundarsölum Landspítala miðað við 50 sentimetra radíus í kringum hvern og einn (eins metra regla).