Landspítali er á hættustigi
Nú liggur 21 á Landspítala vegna COVID-19. 16 þeirra eru í einangrun, 12 á smitsjúkdómadeild, 3 á gjörgæslu og tveir þeirra í öndunarvél, einn sjúklingur er á bráðageðdeild. Fimm sjúklingar hafa lokið einangrun. Í gær komu 7 til mats og meðferðar í COVID göngudeild og tveir þeirra lögðust inn.
1.745 eru í símaeftirliti á Birkiborg, þar af 555 börn. Á gulu eru 105 einstaklingar, enginn er á rauðu.
49 starfsmenn eru frá vinnu vegna einangrunar (26) eða sóttkvíar (23) og 136 eru í vinnusóttkví.
Talnaupplýsingar um stöðuna á spítalanum eru birtar á www.landspitali.is.
- Skimanir vegna smits hjá inniliggjandi sjúklingi sem kom upp á geðendurhæfingardeild í byrjun vikunnar leiddu í ljós smit hjá starfsmanni. Það breytir ekki tímaramma eða umfangi rakningar. Áframhaldandi sýnatökur verða yfir helgina og lýkur á þriðjudag ef ekki greinast fleiri smit.
- Í gær greindist starfsmaður á bráðalyflækningadeild B4 með COVID smit. Viðkomandi fór eftir öllum reglum og að venju var strax gripið til aðgerða, deildin er lokuð eins og er og beðið er eftir niðurstöðum sýna frá sjúklingum og útsettum starfsmönnum en þær munu ráða næstu skrefum.
Hugleiðingar farsóttanefndar
Það er algerlega viðbúið að smit haldi áfram að greinast inni í starfsemi Landspítala á meðan smit í samfélaginu er svo útbreitt sem raun ber vitni. Starfsfólk á sér líf fyrir utan vinnu, það á fjölskyldur og vini, fer í verslanir, sækir viðburði og verður útsett eins og aðrir. Það er hins vegar þrautþjálfað í eigin einkennavöktun, fer samviskusamlega í sýnatöku ef einkenni gera vart við sig og fylgir gildandi sóttvarnareglum á Landspítala í hvívetna.
Miðað við stærð vinnustaðarins og fjölda starfsfólks sem hann sækja er í raun furðu fátítt að smit berist inn. Hver atburður verður hins vegar alltaf fyrirferðarmikill því rakningarteymið kastar netum sínum vítt og hefur mjög lágan þröskuld að senda fólk í sýnatöku og vinnusóttkví.
Á meðan truflast starfsemi þeirra deilda sem í hlut eiga og þar með starfsemi spítalans þar sem engin keðja er sterkari en veikasti hlekkurinn.
Starfsfólk Landspítala á heiður skilinn fyrir úthald, seiglu og elju í ákaflega krefjandi og langvinnu farsóttarástandi.