Landspítali er á hættustigi
Í dag liggja 22 einstaklingar vegna COVID á Landspítala. Af þeim eru 18 með virkt smit, 14 eru á smitsjúkdómadeild, þrír eru á gjörgæslu og allir í öndunarvél og einn einstaklingur er á geðdeild.
Í eftirliti COVID göngudeildar eru 1.687 þar af 519 börn. Um helgina komu 14-18 manns til mats og meðferðar á COVID göngudeild.
Nú er 51 starfsmaður frá vinnu vegna einangrunar (27) og sóttkvíar (24). Auk þess eru 97 í vinnusóttkví.
Á vef Landspítala er myndræn birting tölulegra upplýsinga um Covid-19 á spítalanum.
Sérstakar tilkynningar
- Grímuskylda - þegar setið er við skrifborð þar sem tveir metrar eru á milli starfsmanna Landspítala er heimilt að taka niður grímu. Hins vegar er mjög mikilvægt að setja upp grímu þegar gengið er um rýmið. Einnig er ástæða til að minna á að alltaf eiga að vera tveir metrar milli fólks þegar gríma er tekin niður til að matast.
- Í samræmi við reglur sóttvarnalæknis (útg. 18.11.2021) eru starfsmenn Landspítala sem hafa fengið COVID fyrir sex mánuðum eða minna undanþegnir PCR prófi á landamærum og sóttkví C í kjölfarið. Þeir eru einnig undanþegnir sóttkví C eftir útsetningu innanhúss en hvattir til nákvæmrar einkennavöktunar.
- Starfsmenn Landspítala sem snúa aftur til vinnu eftir COVID sýkingu eiga ekki að fara í nýtt PCR próf. Útskrift frá COVID göngudeild er fullnægjandi. Nýtt próf er líklegt til að vera jákvætt, jafnvel í vikur eða mánuði eftir afstaðna sýkingu án þess að viðkomandi sé smitandi.
- Skjólstæðingar COVID göngudeildar eru vinsamlega beðnir um að hringja ekki í skiptiborð Landspítala eða á COVID göngudeildina vegna útskriftarsímtala heldur bíða þolinmóðir eftir símtali vegna útskriftar. Þessar fyrirspurnir valda miklu álagi á kerfið með tilheyrandi töfum.