Í dag eru 16 sjúklingar inniliggjandi á Landspítala vegna COVID. Þrír eru á gjörgæslu og einn þeirra í öndunarvél. 1.591 er í eftirliti göngudeildar, þar af 377 börn. 55 einstaklingar eru í sérstöku eftirliti (gulir).
Nú eru 26 starfsmenn í einangrun, 23 í sóttkví og 168 í vinnusóttkví. Rakningar vegna smita innanhúss hafa verið á bilinu 5-9 á dag þessa viku.
- Tvær deildir eru lokaðar vegna smits hjá inniliggjandi sjúklingum. Víðtækar skimanir eru í gangi og verða næstu daga vegna smita í geðþjónustu og á heila-, tauga- og bæklunarskurðdeild.
- Vegna þess hve faraldurinn er útbreiddur í samfélaginu er ógjörningur að hindra að smit berist inn á Landspítala. Viðbrögð við því eru að allir fari eftir gildandi sóttvarnareglum, fari strax í sýnatöku ef einkenni gera vart við sig og séu sérstaklega varkárir þegar gríma er tekin niður til að matast.
- Ekki er hægt að treysta því að niðurstaða PCR prófs á landamærum liggi fyrir í tæka tíða ef starfsmaður á að mæta til vinnu daginn eftir heimkomu. Ráðlegt er að skipuleggja ferðalög með hliðsjón af því.
- Nú fá allir sem greinast með COVID skilaboð í Heilsuveru um að sýni hafi greinst jákvætt. Í kjölfarið fá allir símtal frá rakningateymi en ekki er víst að símtal frá COVID göngudeild komi fyrr en nokkrum dögum seinna. Skilaboð um jákvætt sýni felur í sér einangrun sem einungis COVID göngudeildin getur aflétt. Á þessu eru engar undantekningar.
- Þeir starfsmenn Landspítala sem hafa verið bólusettir erlendis eru hvattir til að senda mynd af bólusetningarskírteininu sínu til verkefnastjóra farsóttanefndar sem færir bólusetninguna inn í íslenska kerfið. Þá fær viðkomandi boð í örvunarbólusetningu. Ef starfsmenn eru bólusettir með Sinovac eða Sputnik þá eiga þeir að fá örvun eins og aðrir. Þeir geta valið að fá eina Janssen sprautu sem gefur þá fullgilt íslenskt bólusetningarvottorð en það gerir ein Pfizer sprauta ekki. Þeir sem vilja fá Janssen bóluefnið geta farið á Suðurlandsbraut 34 á föstudögum milli kl. 13:00 og 15:00.
- Nokkuð hefur borist af fyrirspurnum vegna funda sem starfsmenn Landspítala sækja starfs síns vegna utan stofnunar. Meginreglan er að óska skal eftir því að fundurinn sé fjarfundur en ef ekki er hægt að koma því við þá á að nota grímu, hreinsa hendur og gæta að fjarlægð.
- Mælt er með að starfsmenn vinni heima meðan staðan er eins og hún er.