Vísindasjóður Landspítala hefur framlengt til fimmtudagsins 25. nóvember 2021 umsóknarfrest um styrki fyrir ungt vísindafólk Landspítala til klínískra vísindarannsókna.
Tilgangur Vísindasjóðs Landspítala er að efla vísindarannsóknir og vísindamenningu innan spítalans.
Styrkir til ungs vísindafólks á Landspítala eru ætlaðir til metnaðarfullra klínískra vísindaverkefna sem líkleg eru til að leiða til birtinga í góðum ritrýndum alþjóðlegum vísindaritum. Upphæð hvers styrks getur numið allt að 1.500.000 króna (ein og hálf milljón).
Umsóknum er skilað rafrænt gegnum Researchweb, rannsókna- og styrkumsjónarkerfi Landspítala, á sérstöku eyðublaði, Styrkumsókn ungs vísindafólks Landspítala 2021. Leiðbeiningar um innskráningu og notkun kerfisins er að finna á vef Landspítala.
Helstu skilyrði:
- Umsókn er í samræmi við leiðbeiningar og reglur um úthlutun styrkja úr Vísindasjóði Landspítala.
- Allar umbeðnar upplýsingar fylgja umsókn, þ.m.t. ferilskrá og ritalisti umsækjenda og starfshlutfall á Landspítala.
- Um er að ræða klínískt vísindaverkefni sem unnið er á Landspítala.
- Tilskilin leyfi hafa þegar fengist frá viðeigandi siðanefnd(um).
- Styrkfé verður nýtt til greiðslu launa aðalumsækjanda í leyfi frá klínísku starfi.
- Aðalumsækjandi hefur reynslu af vísindastarfi og er að lágmarki í 50% klínísku starfi á Landspítala.
- Meðumsækjandi er leiðbeinandi og/eða ábyrgðaraðili þess verkefnishluta sem sótt er um.
- Meðumsækjandi er starfsmaður á Landspítala í 30% starfi að lágmarki.
- Með umsókn fylgir undirritað bréf yfirmanns aðalumsækjanda í klínísku starfi hans sem inniheldur
- Staðfestingu á veitingu á launalausu leyfi frá klínísku starfi á spítalanum ef styrkur fæst
- Upplýsingar um fjölda mannmánaða sem taka má leyfi frá klínísku starfi. - Með umsókn um framhaldsstyrk verkefnis fylgir fullnægjandi framvinduskýrsla.
Hafa skal enn fremur í huga:
- Framlag aðalumsækjanda til vísindarannsóknarinnar er verulegt og vel útskýrt.
- Umsækjendur geta hverju sinni einungis sótt um einn styrk í styrkjaflokknum fyrir ungt vísindafólk á Landspítala ( á bæði bið um aðalumsækjanda og meðumsækjanda).
- Einungis er unnt að veita einn styrk til sama verkefnis á hverju starfsári sjóðsins (september til ágúst ár hvert).
- Ekki eru veittir styrkir til verkefnahluta sem þegar er búið að framkvæma.
Vísindaráð Landspítala hefur umsjón með mati á innsendum umsóknum fyrir hönd Vísindasjóðs. Umsóknir eru metnar með tilliti til vísindalegs gildis og nýnæmis verkefna, gæða umsókna og reynslu og árangurs umsækjenda í vísindum.
Úthlutun styrkja verður í desember næstkomandi og er ætlast til að styrkhafar haldi stutta kynningu á fyrirhuguðu verkefni við afhendingu styrkja. Einnig er þess vænst að styrkhafar kynni verkefni sitt og niðurstöður þess á Vísindi á vordögum 2022.
Frekari upplýsingar: Valgerður M. Backman (visindarad@landspitali.is), verkefnisstjóri vísindaráðs Landspítala.