Sr. Hjalti Jón Sverrisson hefur verið ráðinn sjúkrahúsprestur við Landspítala.
Sr. Hjalti Jón lauk mag. theol. prófi við guðfræði- og trúarbragðadeild Háskóla Íslands árið 2018. Lokaritgerð Hjalta var á sviði sálgæslu og fjallaði um úrvinnslu skammar í ljósi sálgæslukenninga Howard Clinebell.
Hjalti hefur starfað sem prestur í Laugarneskirkju í Reykjavík með áherslu á sálgæslu og æskulýðstarf. Á undanförnum árum hefur hann leitt ýmiss konar stuðningshópastarf fyrir syrgendur, jafnt börn sem fullorðna innan sorgarmiðstöðvar og þjóðkirkjunnar. Hjalti hefur sótt sér sérþjálfun á ýmsum sviðum sálgæslu svo sem úrvinnslu trauma og lokið framhaldsnámi í sálgæslufræðum við Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands.
Sr. Hjalti Jón var ráðinn til deildar sálgæslu presta og djákna við Landspítala þann 1. september 2021 en hafði áður verið í hlutastarfi við spítalann frá því í febrúar.