Landspítali tók þátt í umfangsmikilli hópslysaæfingu laugardaginn 23. október 2021. Um 500 manns voru í æfingunni á höfuðborgarsvæðinu og í Keflavík.
Þetta var með stærstu hópslysaæfingum sem haldar hafa verið hér á landi. Sett var svið brotlending farþegaþotu á Keflavíkurflugvelli með 120 farþega innanborðs. Félagar í ungliðahreyfingu björgunarsveitanna og úr leikhópum á Suðurnesjum léku slasaða farþega. Reynt var að líkja sem mest eftir raunverulegum aðstæðum og var unnið á staðnum eftir viðbragðsáætlun fyrir Keflavíkurflugvöll.
Eins og reglur kveða á um er viðbragðsáætlun Landspítala virkjuð þegar alvarleg slys verða eins og hópslysaæfingin miðaði við. Í Keflavík var æfingin útfærð að fullu en viðbragðsstjórn og bráðamóttaka Landspítala héldu samhliða „skrifborðsæfingu“ til þess að raska sem minnst starfsemi á Landspítala. Stefnt er að því að halda sérstaka æfingu í vor innan Landspítala.
Á æfingunni núna æfði viðbragðsstjórn Landspítala viðbrögð við hópslysi sem felast meðal annars í því að finna út hversu langan tíma tekur að koma spítalanum í það skipulag sem gengið er út frá þegar hann er settur á neyðarstig.
Bráðamótttakan, skurðstofur, gjörgæsla, svæfing, blóðbanki, apótek og fleiri einingar spítalans tóku þátt í hópslysaæfingunni sem þótti takast vel
Markmið æfingarinnar var meðal annars að æfa samskipti innan Landspítala og hins vegar við aðra viðbragðsaðila. Þetta gekk að mestu vel, helst þótti þurfa að fara yfir fjarskiptamál Landspítala og ráðast í úrbætur á þeim í kjölfarið. Skilgreina þurfi neyðarsíma innan stofnunar sem og notkun á Tetra-talstöðvum.
Þorkell Þorkelsson ljósmyndari Landspítala fylgdist með æfingunni á bráðamóttökunni í Fossvogi og tók myndirnar sem hér fylgja með.