Kiwanisklúbburinn Katla færði leikstofunni á Barnaspítala Hringsins í október 2021 fleiri óeinkennisklæddar taudúkkur en slíkar dúkkur hefur klúbburinn gefið í 25 ár.
Börnin fá taudúkkurnar til eignar og skapa sinn spítalavin með því að teikna á þær. Dúkkurnar fylgja þeim síðan eftir á meðan þau dvelja á Barnaspítalanum og útskrifast með þeim heim. Kiwanismenn hafa í aldarfjórðung komið og gefið svona taudúkkur sem reynst hafa vinsælar. Dúkkurnar hafa skapað góð tengsl við börnin og veitt þeim mikla gleði.
Kiwanisdúkkan varð til í Ástralíu og hefur breiðst þaðan út um heimsbyggðina á vegum Kiwanishreyfingarinnar. Þessi einkennalausa tuskudúkka hefur hjálpað mörgum börnum að takast á við þá erfiðleika sem mæta þeim í framandi umhverfi eins og sjúkrahús eru. Meðan á sjúkrahúsvistinni stendur gengur dúkkan í gegnum það sama og barnið, fylgir því til dæmis í myndatöku, á skurðstofu og í fleira. Það er allt eins víst að stundum þurfi líka að sprauta dúkkuna, sauma eða plástra eftir eftir því hvað barnið þarf að reyna.
Myndir: Ólafur Sigmundsson (með derhúfu) og Ágúst Elva Almy. Með þeim á neðri myndinni eru Sigurbjörg A. Guttormsdóttir og Gróa Gunnarsdóttir kennarar á leikstofunni.