Davíð O. Arnar hefur verið endurráðinn yfirlæknir hjartalækninga á Landspítala. Fimm ára ráðning Davíðs sem yfirlæknir var að renna út en hann hefur gengt stöðunni frá því í febrúar 2015, fyrst sem settur yfirlæknir og var síðan skipaður til fimm ára haustið 2016. Nýja ráðningin er ótímabundin.
Davíð er sérfræðingur í lyflækningum, hjartalækningum og heilbrigðisstjórnun. Hann lauk embættisprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands og sérfræðinámi í lyflækningum, hjartalækningum og raflífeðlisfræði hjartans við University of Iowa Hospitals and Clinics í Iowa City í Bandaríkjunum. Þá hefur hann lokið doktorsprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands og meistaraprófi í stjórnun heilbrigðisþjónustu og lýðheilsu frá Háskólanum í Reykjavík.
Davíð hefur yfirgripsmikla stjórnunarreynslu en hann var yfirlæknir bráðamóttöku á Landspítala Hringbraut frá 2001-2010, yfirlæknir Hjartagáttar frá 2010-2013 og settur yfirlæknir hjartaþræðinga frá 2012-2013. Þá var Davíð framkvæmdastjóri lyflækningasviðs frá 2013-2014.
Davíð O. Arnar hefur verið mjög virkur á sviði vísindarannsókna og var meðal annars heiðursvísindamaður Landspítala 2020. Hans rannsóknir snúa að miklu um hjartsláttartruflunina gáttatif og hann hefur starfað mjög náið með Íslenskri erfðagreiningu. Hann hefur birt fjölmargar greinar um erfðafræði gáttatifs auk þess sem hann hefur rannsakað áhrif sjúkdómsins á heila. Davíð hlaut nýlega stóran styrk ásamt heilbrigðistæknifyrirtækinu Sidekick Health frá Rannís til að rannsaka stafrænar hjartalækningar. Davíð O. Arnar er formaður Félags íslenskra lyflækna og situr í nefndum á vegum Evrópusamtaka hjartalækna.